Reykjavíkurborg ætlar að vera næs

Mannlíf Mannréttindi

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri myndar hjarta með höndunum

Reykjavíkurborg tekur áskorun Rauða krossins um að vera virkur þátttakandi í átakinu Vertu næs. Þetta var samþykkt í borgarráði í dag.

Vertu næs áskorunin hvetur til samskipta við fólk af erlendum uppruna og leggur áherslu á að við komum fram við hvert annað af virðingu. Uppruni, litaraft og trúarbrögð eiga ekki að skipta máli. Með samtakamætti er hægt að hafa mikil áhrif.

Með átakinu ætlar borgin sérstaklega að huga að starfsmönnum borgarinnar en yfir fjögur hundruð erlendir starfsmenn vinna hjá Reykjavíkurborg og þá eru ekki taldir með einstaklingar sem fengið hafa íslenskan ríkisborgararétt.

Starfsmennirnir koma  frá á sjötta tug landa þar á meðal Kína, Litháen, Perú, Rúanda, Sviss, Úganda og Þýskalandi auk einstaklinga sem eiga ekkert ríkisfang. Talið er að starfsmenn borgarinnar tali á  annað hundrað tungumála. Reykjavíkurborg ætlar að hvetja starfsfólk til að fagna fjölmenningu á sínum vinnustöðum og vera næs.

Jafnframt skorar borgin á borgarbúa og önnur sveitarfélög að taka þátt í átaki Rauða Krossins, Vertu næs. Reykjavíkurborg hvetur borgarbúa til að taka mynd af fólki, sem myndar hjarta með höndunum og setja inn á instagram merkt #vertunæs og #reykjavikernæs og dreifa  með því boðskapnum.

Myndband þar sem borgarstjóri hvetur fólk til að taka þátt í Vertu næs