Óskað er eftir umsögnum um tillögur stýrihóps um leiðakerfisbreytingar í Reykjavík vegna samgöngumiðstöðvar við Umferðarmiðstöðvarreit (BSÍ) .
Reykjavíkurborg hefur þá framtíðarsýn að á Umferðarmiðstöðvarreit (BSÍ) við Hringbraut rísi samgöngumiðstöð fyrir samgöngur á landi. Markmiðið er að samgöngumiðstöð í Reykjavík verði lifandi og áhugaverður viðkomustaður, sambærilegur við aðallestarstöðvar í miðborgum erlendis.
Þarna verði m.a.:
- Meginskiptistöð almenningssamgangna innan höfuðborgarsvæðisins og upphafs- og endastöð almenningssamgangna út fyrir svæðið.
- Upphafs- og endastöð almenningssamgangna milli Reykjavíkur og alþjóðaflugvallar.
- Upphafs- og endastöð fjölda hópferðabifreiða.
- Tengipunktur við aðra ferðamáta (hjólreiðar, skyndibíla, leigubíla, gangandi umferð, bílaleigubíla og einkabíla).
Ætla má að samanlagt fari um 5 - 10 þús. manns um samgöngumiðstöðina og lóð hennar á venjulegum degi við opnun hennar. Reikna má með að sá fjöldi vaxi umtalsvert á næstu árum ef spár um aukinn fjölda ferðamanna sem heimsækja landið, spár um íbúafjölgun og framtíðaráform um fjölgun þeirra sem nýta sér almenningssamgöngur ganga eftir.
Stýrihópur um leiðakerfisbreytingar í Reykjavík vegna alhliða samgöngumiðstöðvar á umferðarmiðstöðvarreit (U-reit) var skipaður með erindisbréfi dags. 21. nóvember 2014. Í erindisbréfinu segir m.a. að hópurinn sé skipaður til að fylgja eftir áframhaldandi þróun alhliða samgöngumiðstöðvar á U-reit og halda áfram þeirri vinnu sem þegar hefur verið unnin vegna endurskoðunar leiðakerfis almenningssamgangna. Hlutverk stýrihópsins sé að fara yfir og rýna í fyrirliggjandi tillögur að leiðakerfisbreytingum, samræma hugmyndir og leitast við að ná sameiginlegri niðurstöðu um breytingar á leiðakerfi tengt uppbyggingu samgöngumiðstöðvar á U-reit.
Stýrihópinn skipuðu eftirtaldir:
Kristín Soffía Jónsdóttir borgarfulltrúi, formaður; Eva Indriðadóttir umhverfis- og skipulagsráði; Herdís Anna Þorvaldsdóttir umhverfis- og skipulagsráði og Svafar Helgason umhverfis- og skipulagsráði.
Til ráðgjafar og samstarfs voru Einar Kristjánsson og Ragnheiður Einarsdóttir hjá Strætó bs. og Ólafur Bjarnason samgöngustjóri Reykjavíkur. Með hópnum vann Þorsteinn R. Hermannsson, samgönguverkfræðingur hjá Mannviti.
Netfang: usk@reykjavik.is.