Mikið var um dýrðir í Laugarnesskóla í morgun þegar því var fagnað að áttatíu ár eru liðin síðan skólinn tók til starfa.
Afmælisdagurinn hófst á morgunsöng á sal eins og hefð er fyrir í skólanum og var sunginn skólasöngur og lög sem voru vinsæl í útvarpinu á þeim árum þegar skólinn tók til starfa á liðinni öld. Síðan héldu allir nemendur í skrúðgöngu um Laugarneshverfi undir lúðrablæstri skólahljómsveitar Austurbæjar. Þegar nemendahópurinn kom aftur í hús var boðið upp á risaafmælisköku og kakó. Nemendur og starfsmenn í Laugarnesskóla skreyttu sig að sjálfsögðu með litríkri afmæliskórónu í tilefni dagsins.
Í vor verður afmælishátíðinni fram haldið þegar sýning verður haldin á verkum nemenda sem þau gera í tilefni þessara tímamóta.
Til hamingju Laugarnesskóli!