Kvöldganga um söguminjar í Öskjuhlíð

Mannlíf

""

Fimmtudaginn 16. júlí mun Helgi Máni Sigurðsson, sagnfræðingur, leiða áhugaverða göngu í Öskjuhlíð þar sem sagt verður frá ýmsum minjum sem þar er að finna. 

Þekktastar eru fjölbreyttar stríðsminjar frá síðari heimsstyrjöld, 1939 - 1945. Bretar lögðu Reykjavíkurflugvöll á árunum 1940 - 41 með aðstoð heimamanna og var hann mikilvægasta bækistöð setuliðsins á landinu. Í tengslum við hann reistu þeir ýmis mannvirki sem fróðlegt verður að fræðast um.

Í Öskjuhlíðinni eru einnig minjar um búskap, svo sem sel og fjárborgir, þar er áletraður landamerkjasteinn, sögustaðir eins og Beneventum o.fl. Öskjuhlíðin er með fjölbreyttu náttúrufari og mikilli skógrækt og hefur verið afar vinsælt útvistarsvæði um langt skeið.

Lagt verður upp frá aðalinngangi Perlunnar kl. 20.00. Gangan tekur um það bil eina og hálfa klukkustund og hentar öllum. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.