Í upphafi árs fór af stað norræn samkeppni um tæknilausnir í velferðarþjónustu. Þátttaka fór fram úr björtustu vonum en 414 tillögur bárust, þar af 63 hugmyndir frá Íslandi. Þrjú íslensk verkefni eru komin í 25 manna úrslitahóp.
Markmið keppninnar er að stuðla að auknu sjálfstæði í lífi fatlaðs fólks og aldraðra. Í byrjun september var haldin kraftmikil vinnusmiðja í Osló þar sem þátttakendur kynntu hugmyndir sínar og unnu áfram með þær. Þátttakendur héldu stuttar kynningar þar sem þeim var ætlað að sannfæra aðra um ágæti verkefnisins á þremur mínútum. Hóparnir unnu að viðskiptaáætlun og fengu leiðsögn í að útfæra sín verkefni ítarlegar.
Sérfræðingar á sviði tæknilausna og ráðgjafar í markaðssetningu stjórnuðu vinnusmiðjunni og voru keppendum innan handar í stefnumörkun á þeirra lausnum.
Hver hópur fær aðstoð til að gera nákvæma viðskiptaáætlun og hafa keppendurnir hver sinn sérfræðing sem er leiðbeinandi í þróun hugmynda.
Keppendum verður næst boðið í vinnusmiðjur sem haldnar verða í öllum höfuðborgum Norðurlanda í októbermánuði. Þar býðst þeim að bæta enn við þekkingu sína í nýsköpun og þróa verkefni sín áfram. Í desember verður svo ákveðið hvaða fimm hugmyndir halda áfram í úrslitahóp þessarar keppni. Þeim þátttakendum gefst tækifæri til að fullvinna sína hugmynd.
Íslensku hugmyndirnar þrjár sem eru í 25 manna úrslitum eru;
• Ylgarðurinn (Thermal wintergarden) undir verkstjórn Þórdísar Harðardóttur,
• Lipri ferðalangurinn (Agile Traveller) undir verkstjórn Ósk Sigurðardóttur
• E-21, sjálfstæð og Örugg æviár (Safe and Independent Ageing), sem er verkefni unnið í samvinnu Íslendinga og Dana undir verkstjórn Víðis Stefánssonar og Nicolai Söndergaard Laugesen.
Það væri rós í hnappagat frumkvöðla á Íslandi ef íslensk verkefni komast enn lengra í samkeppninni, Nordic Innovation, um sjálfstætt líf.