Hlutfall ungs fólks (yngra en 25 ára) sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu í Reykjavík er nú jafn lágt og árið 2000. Hlutfall 18-19 ára er lægra árið 2014 en það var árið 2000.
Á síðustu árum hefur verið gripið til margvíslegra ráðstafana í til að auka þjónustu við viðtakendur fjárhagsaðstoðar í Reykjavik, sér í lagi fyrir ungt fólk , þá sem eru að ljúka bótarétti hjá Vinnumálastofnun og óvinnufæra. Markmiðið er að auka virkni einstaklinga og draga úr líkum á því að aðstoð verði til langs tíma..
Virkniverkefni hafa sýnt umtalsverðan árangur. Má þar t.d. nefna Atvinnutorg en á árinu 2014 fengu 336 ungmenni þjónustu Atvinutorgs. Af þeim luku 241 þátttöku og einungis 95 þeirra fengu fjárhagsaðstoð til framfærslu 1. janúar 2015.
Þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til eru ýmist alfarið á hendi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar eða í samstarfi við aðrar stofnanir. Meðal þess sem gert hefur verið til að auka virkni einstaklinga er að ráða inn sérstaka virkniráðgjafa á þjónustumiðstöðvar velferðarsviðs, Atvinnutorg var opnað í febrúar 2012, Stígur, þjónusta við atvinnuleitendur, fór af stað í mars 2014, Atvinnumáladeild var stofnuð hjá Reykjavíkurborg árið 2012 og færniteymi með þjónustu fyrir sjúklinga og matsteymið Velvirk hófu starfsemi árið 2014. Árið 2015 færðist starfsemi Atvinnutorgs yfir til Vinnumálastofnunar með sérstökum samstarfssamningi. Af þeim einstaklingum sem vísað var til Vinnumálastofnunar hafa 73% fengið starf á almennum vinnumarkaði.
Þá hefur velferðarsvið boðið uppá sérstök átaksverkefni m.a. Kvennasmiðju sem er endurhæfingarúrræði fyrir mæður á aldrinum 24-45 ára sem átt hafa við langvarandi félagslega erfiðleika að stríða og hefur gengið illa að fóta sig á vinnumarkaði eða í námi vegna heilsufarsvanda. Hlutfall þeirra sem sem ekki fá fjárhagsaðstoð til framfærslu 12 mánuðum eftir útskrift úr Kvennasmiðju er 63%.
Stuðningur til virkni er mikilvægur til að viðhalda færni fólks til þátttöku á
vinnumarkaði. Í kjölfar efnahagskreppunnar árið 2008 greip velferðarsvið borgarinnar til margvíslegra aðgerða til að sporna gegn fjölgun þeirra sem þurfa á fjárhagsaðstoð til framfærslu að halda. Þessi vinna hefur breyst undanfarin ár en ætíð verið með það að markmiði að styrkja einstaklinga, valdefla, virkja þá og viðhalda færni þeirra til þátttöku á vinnumarkaði.
Samantekt upplýsinga vegna fjárhagsaðstoðar hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar