Haldið var upp á sextugsafmæli Hlíðaskóla um helgina. Mikið var um dýrðir en boðið var til hverfishátíðar af þessu tilefni.
Foreldrafélag skólans bauð til afmælis- og hverfishátíðar í samvinnnu við nemendafélagið, skólann og tómstundafélög í hverfinu. Margt var um manninn á afmælishátíðinni þar sem boðið var upp á andlitsmálun, bolalitun, hoppukastala, grillaðar pylsur og margt fleira. Gamlir og nýir nemendur skólans skemmtu sér saman og margir vinir og velunnarar skólans mættu á hátíðina, nutu skemmtilegrar dagskrár og rifjuðu upp góðar minningar. Meðal gamalla nemenda sem skemmtu gestum voru Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður og Björn Thors leikari.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setti hátíðina og sunginn var afmælissöngur í tilefni dagsins. Þá flutti Kór Menntaskólans í Hamrahlíð undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur nokkur lög.
Til hamingju Hlíðaskóli með áfangann.