Í vetur býðst börnum og unglingum í borginni margvísleg fræðsla um náttúru og umhverfi.
Grasagarður Reykjavíkur
Grasagarðurinn stendur fyrir fjölbreyttri fræðslu fyrir skólahópa og almenning í vetur. Margvísleg plöntusöfn eru nýtt til fræðslu um umhverfið, garðyrkju, grasafræði, fugla- og smádýralíf, garðmenningu og grasnytjar.
- Græni bakpokinn – Hægt er að fá lánaðan grænan bakpoka Grasagarðsins sem inniheldur skemmtileg náttúruverkefni og fróðlega leiki fyrir leikskólahópa og nemendahópa á yngsta stigi grunnskóla. Græni bakpokinn er lánaður án endurgjalds alla daga á opnunartíma garðsins en nauðsynlegt er að panta pokann fyrirfram.
- Móttaka og leiðsögn - Tekið er á móti skólahópum í leiðsögn um garðinn allan ársins hring eftir samkomulagi.
Nánari upplýsingar og bókanir í síma 411 8650 virka daga kl. 9 - 15 eða í gegnum netfangið botgard@reykjavik.is.
Fjölskyldu og húsdýragarðurinn
Fjölmörg námskeið eru í boði í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í vetur auk þess sem allir aldurshópar eru velkomnir í leiðsögn. Mikilvægt er að bóka bæði leiðsagnir og námskeið fyrirfram en helstu námskeiðin eru þessi:
- Húsdýrin okkar – Fyrir leikskólabörn.
- Hugrakkir krakkar – Fyrir leikskólabörn.
- Dýrafræðsla – Fyrir nemendur í 3. bekk.
- Dýr í sjó og vötnum – Fyrir nemendur á fyrri hluta miðstigs.
- Vinnumorgunn – Fyrir nemendur á síðari hluta miðstigs.
- Villt íslensk spendýr – Fyrir nemendur á efsta stigi.
- Framandi dýr – fyrir nemendur á efsta stigi.
Nánari upplýsingar á vef Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, www.mu.is.
Náttúruskóli Reykjavíkur
Náttúruskóli Reykjavíkur stendur fyrir námskeiðum um útinám og menntun til sjálfbærni fyrir starfsfólk leik- og grunnskóla og starfsstaða frístundastarfs:
- Allt um útinám – Grunnnámskeið fyrir starfsfólk leik- og grunnskóla um útinám. Farið í aðferðafræði útináms, hagnýtar lausnir og góðar venjur. Náttúruleikir kenndir.
- Menntun til sjálfbærni – Námskeið fyrir starfsfólk leik- og grunnskóla og starfsstaði frístundastarfs þar sem fjallað er um sjálfbæra þróun, menntun til sjálfbærni og leitast við að skýra grunnþáttinn sjálfbærni í aðalnámskrá.
Tekið er við skráningum á netfangið natturuskoli@reykjavik.is.
Reykjavík iðandi af lífi
- Fuglavika verður haldin í október í samstarfi við Fuglavernd. Þá viku verða ýmsir viðburðir opnir almenningi.
- Hverfisfuglinn er verkefni fyrir leikskóla í borginni sem unnið er í samstarfi við Náttúruskóla Reykjavíkur. Helstu markmið þess eru að auka vitund, tengsl og virðingu leikskólabarna fyrir náttúru í nærumhverfi sínu, fræða leikskólabörn um íslenska fugla, sérstaklega fuglategundir í Reykjavík, samhliða því að efla útinám í leikskólanum. Verkefnið er á dagskrá á vormisseri 2016.
Reykjavík iðandi af lífi er á fésbók: www.facebook.com/reykjavikidandi.
Frístundamiðstöðin Gufunesbær
Í Gufunesi er boðið upp á ýmiskonar dagskrá fyrir börn og unglinga á fjölbreyttu útivistarsvæði frístundamiðstöðvarinnar. Heimsóknir í Gufunes þarf að bóka fyrirfram.
Í haust verður einnig boðið upp á grunnnámskeið í útinámsfræðum sem sniðin eru að þeim sem vilja kynna sér fjölbreytta möguleika útináms:
- Grunnnámskeið – Hvað er útinám?
- Lesið í skóginn – tálgað í tré.
- Rathlaup (Orientering).
- Útieldun – opnar hlóðir og útieldhús.
- Listsköpun í leynirjóðri.
Nánari upplýsingar og skráning á vefsíðunni www.gufunes.is.
Viðburðir á Degi íslenskrar náttúru 16. september 2015
- Opinn samráðsfundur verður haldinn á vegum starfshóps SFS um stefnumörkun um menntun til sjálfbærni og Náttúruskóla Reykjavíkur í Laugalækjarskóla. Fundurinn er opinn öllu áhugafólki um menntun til sjálfbærni en einkum er starfsfólk skóla- og frístundasviðs hvatt til að mæta. Um er að ræða fyrri fund af tveimur, sá síðari er dagsettur 14. október nk. Fundurinn hefst kl. 15.00 og stendur til 16.30. Stutt kynning verður á fyrirhugaðri stefnumörkun og síðan verður þátttakendum boðið til heimskaffis.
- Í Fjölskyldu – og húsdýragarðinum verður sýning á uppstoppuðum fuglum úr safnkosti garðsins sett upp í Hafrafelli. Fræðslufulltrúar garðsins verða á staðnum til skrafs og ráðagerða en munu einnig bjóða upp á hænuegg orpin í garðinum og gestir geta fengið að gefa hænunum að éta. Skólahópar sem heimsækja garðinn á Degi íslenskrar náttúru eru hvattir til að safna því rusli sem verður á vegi þeirra og leggja í þar til gerða hrafnslaupa sem verða í garðinum. Í laupunum geta hóparnir sest niður til að snæða nestið sitt auk þess sem opin nestisaðstaða verður í tjaldinu við veitingahús.
- Reykjavík iðandi af lífi stendur fyrir fuglaskoðun í Grafarvogi. Hist verður við Grafarvogskirkju kl. 12 og þátttakendur eru hvattir til að hafa með sér sjónauka og fuglahandbók.
- Í Grasagarði Reykjavíkur verður boðið upp á móttöku leikskólahópa alla morgna vikuna 14. - 18. september. Þá verður augum, eyrum og nefjum beint að gróðrinum og fuglalífinu í garðinum. Skrá verður hópa í heimsóknir þessa viku. Bókanir og nánari upplýsingar hjá Hildi Örnu í gegnum síma 846 9276.
Sjá auglýsingu um græna fræðslu.