Göngugötur í miðborginni vegna mikillar aðsóknar á Airwaves

Mannlíf Samgöngur

""
Til að skapa rými fyrir mikinn mannfjölda í miðborginni á meðan Iceland Airwaves tónlistarhátíðin stendur yfir dagana  4.-8. nóvember næstkomandi  verður hluta af tveimur götum breytt tímabundið í göngugötur.  Um er að ræða annars vegar Laugaveg  frá Vatnsstíg niður að gatnamótum Bankastrætis og Þingholtstrætis og hins vegar Skólavörðustíg frá gatnamótum Bergstaðastrætis að Bankastræti. 
Svæðið verður því eingöngu fyrir gangandi  í fimm daga, frá miðvikudegi 4. nóvember til sunnudagskvölds 8. nóvember.  Akstur vegna vöruflutninga er heimilaður milli kl. 7.00 – 11.00 á miðvikudag, fimmtudag og föstudag.
 

Mikil aðsókn kallar á aukið rými

Hátíðin setur mikinn svip á borgina og henni fylgir fjölbreytt mannlíf. Búist er við um sex þúsund erlendum gestum og verða í allt níu þúsund miðar seldir á hátíðina í ár. Auk hátíðarinnar sjálfrar verða mikið af svokölluðum „off- venue“ eða hliðarviðburðum, sem ekki þarf miða á, og eru þeir flestir miðsvæðis í borginni. Meðal staða sem hýsa slíka viðburði eru Dillon á Laugavegi 30, Around Iceland á Laugavegi 18b, Loft Hostel Í Bankastræti  7 og 12 Tónar á Skólavörðustíg. Gestir sem sækja miðborgina heim verða því umtalsvert fleiri en fjöldi seldra miða segir til um og veitir því ekki af auknu rými fyrir gangandi vegfarendur. 
 

Tengt efni: