Aðfaranótt 25. apríl 1915 kom upp eldur í Hótel Reykjavík í Austurstræti sem breiddist hratt út og á augabragði var stór hluti miðbæjarins alelda. Í tilefni þess að 100 ár verða liðin frá þessum atburðum verður sett upp sýning í Ráðhúsi Reykjavíkur dagana 24. til 28. apríl næstkomandi.
Miðbæjarbruninn er einn stærsti bruni í sögu Reykjavíkur fyrr og síðar. Eldurinn breiddi hratt úr sér og á augabragði var stór hluti miðbæjarins alelda. Miðbæjarbruninn er einn stærsti bruni í sögu Reykjavíkur fyrr og síðar og hafði hann töluverð áhrif á þróun höfuðstaðarins til frambúðar.
Á sýningunni í Ráðhúsinu geta gestir kynnt sér atburði þessarar örlagaríku nætur, hvaða áhrif þeir höfðu á brunavarnir á Íslandi og hvaða þátt þeir áttu í að móta ásýnd borgarinnar sem við þekkjum í dag. Á sýningunni verða meðal annars gamlir munir Slökkviliðsins sem notaðir voru í baráttunni við eldinn árið 1915.
Laugardaginn 25. apríl, þegar nákvæmlega 100 ár verða liðin frá brunanum, verður sérstök dagskrá til að minnast þessara atburða.
Dagskráin verður eftirfarandi:
Kl.13.00 - S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs, opnar sýninguna í Ráðhúsinu með formlegum hætti og dælubílar frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins dæla vatni út í tjörnina í tilkomumiklum boga.
Kl. 14.00 til 17.00 – Gamlir og nýir bílar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins verða til sýnis í Thorvaldsensstræti við Austurvöll.
Kl. 14.30 og kl. 15.30 – Söguganga frá Kaffi París um brunasvæðið þar sem atburðir næturinnar verða raktir með leikrænum hætti.
Sýningin er unnin í samvinnu við Barnamenningarhátíð í Reykjavík og eru börn og ungmenni þess vegna sérstaklega boðin velkomin.