Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Sigríður B. Guðjónsdóttir lögreglustjóri skrifuðu í morgun undir bréf til foreldra barna og unglinga í Reykjavík þar sem minnt er á gildandi reglur um útivistartíma. Reglurnar eru fyrst og fremst settar til verndar börnum og stuðla að því að þau séu ekki ein og eftirlitslaus úti eftir að rökkva tekur. Bréfin munu berast í næstu viku.
Markmiðið með útivistarreglunum er að stuðla að heilbrigðu umhverfi fyrir börn og unglinga. Með bréfinu fylgir lítill segull með yfirliti yfir útivistartíma sem hjálpar foreldrum að setja börnum sínum mörk hvað varðar hversu lengi þau mega vera úti við.
Frá og með 1. september til 1. maí mega:
12 ára börn og yngri vera lengst úti til klukkan 20.
13 - 16 ára börn mega vera úti til klukkan 22.
Foreldrum er heimilt að stytta þennan tíma en ekki lengja. Bregða má út af reglunum þegar börn eru í fylgd með fullorðnum og börn 13 - 16 ára eru á heimleið frá viðurkenndri skóla-, íþrótta-, eða æskulýðasamkomu. Aldur miðast við fæðingarár.