Reykjavíkurborg hefur ákveðið að stefna ríkinu vegna vanefnda á samningum um lokun NA/SV flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli. Hefur borgarlögmanni verið falið að útbúa stefnuna.
Á fundi borgarráðs í morgun var lagt fram svarbréf innanríkisráðuneytisins til Reykjavíkurborgar við tveimur bréfum borgarstjóra til ráðuneytisins. Í bréfum borgarstjóra er fjallað um vanefndir á samningum Reykjavíkurborgar og ríkisins um lokun NA-SV flugbrautar Reykjavíkurflugvallar og ríkið hvatt til þess að efna gerða samninga um lokun brautarinnar og skipulag flugvallasvæðisins.
Í framhaldi af kynningu svarbréfsins bókaði meirihlutinn að borgarlögmanni yrði nú falið að stefna ríkinu vegna vanefnda á samningum sem kveða á um lokun þriðju brautarinnar.
Í framhaldi af kynningu svarbréfsins bókaði meirihlutinn að borgarlögmanni yrði nú falið að stefna ríkinu vegna vanefnda á samningum sem kveða á um lokun þriðju brautarinnar.
Í svarbréfi innanríkisráðuneytisins er rökum Reykjavíkurborgar fyrir því að innanríkisráðuneytinu, fyrir hönd íslenska ríkisins, sé skylt að tilkynna um lokun NA-SV flugbrautar Reykjavíkurflugvallar mótmælt. Þá mótmælir innanríkisráðuneytið mögulegri bótaskyldu ríkisins vegna framkvæmda á Hlíðarendasvæðinu.
Í niðurlagi bréfsins er tekið fram að „telja verði eðlilegt að Reykjavíkurborg leggi fyrir dómstóla að fá úr þeim álitamálum leyst þannig að skorið verði úr um hvort sú skylda hvílir á ríkinu að loka flugbrautinni eða skipulagsreglum breytt.“
Reykjavíkurborg hefur ítrekað farið fram á við innanríkisráðuneytið að það tilkynni um lokun NA-SV flugbrautarinnar og hlutist til um endurskoðun á skipulagsreglum um Reykjavíkurflugvöll í samræmi við skuldbindingar sem ríkið gekk undir með samningum frá 19. apríl 2013 og 25. október 2013 sem kveða á um að flugbrautinni verði lokað.
Í bréfi borgarstjóra til innanríkisráðuneytisins frá 30. okt síðastliðnum kemur fram að Reykjavíkurborg hafi ríka hagsmuni af því að ríkið standi við gerða samninga þannig að hægt verði að halda áfram með nauðsynlega uppbyggingu á Hlíðarenda. Þá segir í bréfinu að efni innanríkisráðherra ekki framangreindar skuldbindingar muni Reykjavíkurborg höfða mál á hendur íslenska ríkinu til viðurkenningar kröfum sínum.
Eftirfarandi bókanir voru gerðar vegna málsins í borgarráði í dag.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata lögðu fram svohljóðandi bókun:
„Með samningum dags. 19. apríl 2013 og 25. október 2013 skuldbatt ríkið sig til að loka norðaustur/suðvestur flugbraut (braut 06/24) á Reykjavíkurflugvelli og breyta skipulagsreglum fyrir Reykjavíkurflugvöll til samræmis við lokun flugbrautarinnar. Með framlögðu bréfi innanríkisráðherra, dags. 3. nóvember 2015, hafnar ráðherrann að skylt sé að tilkynna um lokun brautarinnar og gera breytingar á skipulagsreglum fyrir Reykjavíkurflugvöll. Með vísan til þeirrar afstöðu sem birtist í bréfi innanríkisráðherra, dags. 3. nóvember sl., er borgarlögmanni falið að höfða mál á hendur ríkinu til viðurkenningar eða staðfestingar á framangreindum skuldbindingum ríkisins.“
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði fram svohljóðandi bókun:
„Framsókn og flugvallarvinir fagna því að málsmeðferð vegna Reykjavíkurflugvallar sé nú loks komin í faglegt ferli. Innanríkisráðherra hefur yfirumsjón með flugmálum og ber ábyrgð á því að fyllsta flugöryggis sé gætt meðal annars á grundvelli alþjóðlegra reglna. Til að unnt sé að taka ákvörðun um lokun flugbrautar er ekki nóg að taka flugbraut út af skipulagi eins og meirihlutinn gerði heldur verður það að liggja fyrir að lokun flugbrautarinnar komi ekki niður á öryggi flugvallarins og að viðhalda megi fullnægjandi þjónustustigi fyrir alla landsmenn. Slíkt lá hvorki fyrir þegar meirihlutinn ákvað að taka flugbrautina út af skipulagi né liggur það nú fyrir. Ekki liggja fyrir nauðsynleg gögn til að taka afstöðu til lokunar flugbrautarinnar en í niðurstöðu Samgöngustofu frá því í sumar um áhættumatið kemur fram að áhættumat Isavia nái hvorki til áhrifa á flugvallarkerfi landsins í heild sinni, neyðarskipulags Almannavarna, áhrifa á sjúkraflutninga né fjárhagslegra áhrifa á flugrekstur og þurfi að gera sérstakt áhættumat um framkvæmd breytingarinnar komi til þess að ákveðið verði að loka flugbraut 06/24.“
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:
„Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagst gegn því að lóðum yrði úthlutað og framkvæmdir almennt heimilaðar vegna þess að NA/SV flugbrautin er til staðar og því óábyrgt af Reykjavíkurborg að taka ákvarðanir sem skapa kostnað hjá þriðja aðila. Slíkur kostnaður getur fallið á skattgreiðendur í Reykjavíkurborg ef illa fer. Innanríkisráðherra áréttar í bréfi sínu, dags. 3. nóv. sl., það sem einnig kom fram í bréfi frá ráðherra 17. apríl sl. að Reykjavíkurborg sé það fullkunnugt að leyfi fyrir framkvæmdum og öðrum ráðstöfunum á Hlíðarendasvæðinu séu undanfari byggingaframkvæmda sem ekki geti orðið af að óbreyttum skipulagsreglum fyrir flugvöllinn. Ráðherra áréttar að útgáfa byggingarleyfa á Hlíðarendasvæðinu sé alfarið á ábyrgð og áhættu Reykjavíkurborgar. Um leið ítrekar ráðherra mikilvægi þess að ríki og Reykjavíkurborg vinni áfram að samkomulagi um framtíð Reykjavíkurflugvallar í samráði við þá sem hagsmuni eiga að gæta. Þetta verður ekki skýrara að mati borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem ítreka fyrri afstöðu sína um að meirihlutinn í Reykjavíkurborg láti af því að gefa út leyfi og gera aðrar ráðstafanir á Hlíðarendasvæðinu því það varðar öryggismál í flugi og tengingu höfuðborgarinnar við landið í heild og það skapar mikla fjárhagslega áhættu fyrir Reykvíkinga að vinna með þeim hætti sem meirihlutinn gerir. Nær er af hálfu meirihlutans að vinna að lausn varðandi framtíð flugvallarins í samstarfi við innanríkisráðherra.“
Borgarráðsfulltrúar meirihlutans lögðu þá fram svohljóðandi bókun:
„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa samþykkt báða samninga Reykjavíkurborgar við ríkið um lokun þriðju brautarinnar, kaup á landi ríkisins í Skerjafirði og alla samninga við Valsmenn um uppbygginguna á Hlíðarenda.“