Ánægja íbúa Reykjavíkur með þjónustu borgarinnar og umhverfi var könnuð undir lok síðasta árs og liggja niðurstöður nú fyrir. Annars vegar var gerð viðhorfskönnun á þjónustu sveitarfélagsins í heild og hins vegar þjónustu í hverfum borgarinnar.
Með skiptingu könnunarinnar eftir hverfum má sjá hver afstaða íbúa er í samanburði við afstöðu íbúa í öðrum hverfum. Almennt séð eru íbúar ánægðir með sitt hverfi og þeir eru ánægðari með þjónustu í sínu hverfi en Reykjavík í heild. Þegar spurt er um hverfið þá telja 89% aðspurðra hverfið sitt vera góðan stað til að búa á, en þegar spurt var um Reykjavík í sveitarfélagakönnun var niðurstaðan tíu prósentustigum lægri. Ekki síst í þessu ljósi er áhugavert að skoða niðurstöður eftir hverfum eða borgarhlutum.
Borgarhlutarnir eru 10 en niðurstöður fyrir Kjalarnes eru hafðar með Grafarvogi þar sem hverfin hafa sameiginlega þjónustumiðstöð og einnig eru of fá svör að baki Kjalarnesi til að birta niðurstöður einar og sér. Samantektir hverfanna eru hér hægra megin á síðunni undir „tengd skjöl“.
Capacent Gallup sá um framkvæmd kannana og svöruðu 984 Reykvíkingar 18 ára og eldri í heildarkönnun og 1031 Reykvíkingur 18 ára og eldri í könnun um þjónustu í hverfunum. Sömu spurningar voru lagðar fyrir nema að því leyti að spurt var um Reykjavík sem heild í sveitarfélagakönnuninni en spurt um afstöðu til hverfa í seinni könnuninni. Kannanirnar voru framkvæmdar í október - desember. Frétt með heildarniðurstöðum eru hér á vef Reykjavíkurborgar: 89% íbúa eru ánægðir með hverfið sitt - en samantektir einstakra hverfa má sjá undir „tengd skjöl“.