Áhersla er lögð á að halda öllum helstu akstursleiðum opnum og hefur það gengið að mestu upp, en víða hægt, segja þeir sem standa vaktina í snjóhreinsun hjá Reykjavíkurborg. Í verstu hryðjunum í dag lokuðust leiðir í Norðlingaholti um tíma, en þungfært er um alla borg.
Bílar sem sitja fastir eða fara hægt í þæfingnum hægja á hreinsunarstörfum og eru þeir sem eru á illa búnum bílum til vetraraksturs eindregið hvattir til að leggja ekki af stað. Mikilvægt er að þeir sem hafa skilið bíla sína eftir á stofnbrautum og stærri umferðargötum hugi sem fyrst að því að koma þeim á brott.
Öll tiltæk ruðningstæki Reykjavíkurborgar og verktaka á hennar vegum hafa verið á ferðinni í allan dag og gert er ráð fyrir að unnið verði langt fram á kvöld af fullum krafti, allt frá Granda upp í Úlfarsárdal. Síðan verða snjóruðningstæki ræst á nýjan leik í nótt klukkan fjögur. Ekki verður farið í húsagötur að sinni heldur lögð áhersla á allar meginleiðir, stofnbrautir og fjölfarnari umferðargötur.
Skyggni var og er víða lélegt og því var brugðið á það ráð um ellefuleytið í morgun að kveikja á götulýsingu.
Röskun á skólastarfi og sorphirðu
Til að tryggja að börn færu ekki út í óveðrið að loknum skóla var viðbragðsáætlun um röskun á skólastarfi virkjuð. Jafnframt voru skólar beðnir um að tryggja að börn færu ekki úr skólunum nema í fylgd fullorðinna. Foreldrar og forráðamenn voru beðnir um að tryggja að börn þeirra yrðu sótt í skólana, svo þau væru ekki ein á ferðinni í óveðrinu. Sjá frétt um röskun á skólastarfi.
Eftir hádegi í dag var sorphirðu hætt tímabundið vegna veðursins. Sjá frétt um Sorphirðu.