Akstri á sorpbílum Reykjavíkurborgar var hætt kl. 13.30 í dag sökum slæmra veðurskilyrða til sorphirðu við heimili. Losa á átti tunnur í Árbæ, Norðlingaholti og Grafarholti.
Störf við sorphirðu í borginni tefjast því í þessari viku vegna þungrar færðar. Vonast er til að allt náist fyrir jól eins og áætlað er.
Borgarbúar eru vinsamlegast beðnir um að sjá til þess að aðkomuleiðir að tunnum séu greiðfærar þeim sem sinna losun ílátanna. Sérstaklega þarf að huga að því að hægt sé að opna sorpgerði og hurðir því þær geta átt það til að frjósa fastar. Einnig þarf að moka tröppur á aðkomuleiðum og frá sorpgeymslum næstu daga og hálkuverja með sandi eða salti til að greiða götu starfsfólks við störfin. Komi til þess að ekki er hægt að losa tunnur vegna slæmra aðstæðna er ekki víst að það verði hægt fyrir jól.