Svifryk undir heilsuverndarmörkum á nýársdag
Styrkur svifryks fyrstu klukkustundina árið 2014 var 245 míkrógrömm á rúmmetra í mælistöðinni við Grensásveg í Reykjavík. Meðaltalsstyrkurinn á nýársdag var hins vegar 18 míkrógrömm á rúmmetra. Heilsuverndarmörkin á sólarhring eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.
Fyrstu klukkustundina árið 2013 var styrkurinn 475, árið 2012 var hann 1014, árið 2011 var hann 284, og 2010 var hann 1575 og það ár var allur dagurinn yfir heilsuverndarmörkum eða 225. Styrkur svifryks fór átta sinnum yfir sólarhring-heilsuverndarmörk árið 2013 líkt og árið 2012.
Í loftgæðafarstöð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem staðsett er við leikskólann Geislabaug í Grafarvogi var meðaltalsstyrkur svifryks 5 míkrógrömm á rúmmetra fyrstu klukkustundina og í Fjölskyldu og húsdýragarðinum 5,5. Ástæða fyrir lágum svifryksgildum þessi áramót er falin í veðurskilyrðum.
Þess má geta að gögn birtust ekki á vef Reykjavíkurborgar og Umhverfisstofnunar á tímabili en engin gögn töpuðust og var unnið úr þeim. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks á www.reykjavik.is/loftgaedi en þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík.