Nýtt safn – nýtt nafn!

Mannlíf Menning og listir

""

Þann 1. júní nk. tekur til starfa nýtt safn í eigu Reykjavíkurborgar. Undir safnið munu heyra söfnin og sýningarstaðirnir Árbæjarsafn og Landnámssýningin Reykjavík 871±2 í Aðalstræti, Ljósmyndasafn Reykjavíkur í Grófarhúsi, Sjóminjasafnið að Grandagarði 8 og Viðey. Tekið skal fram að heiti safnanna munu halda sér aðeins er verið að leita að nýju yfirheiti. Nú leitum við liðsinnis borgarbúa, um hugmynd að nafni á safnið sem er lýsandi fyrir fjölbreytta starfsemi stofunarinnar og þjónustu.  Ertu með hugmynd að nafni?

Þann 1. júní nk. tekur til starfa nýtt safn í eigu Reykjavíkurborgar. Undir safnið munu heyra söfnin og sýningarstaðirnir Árbæjarsafn og Landnámssýningin Reykjavík 871±2 í Aðalstræti, Ljósmyndasafn Reykjavíkur í Grófarhúsi, Sjóminjasafnið að Grandagarði 8 og Viðey. Tekið skal fram að heiti safnanna munu halda sér aðeins er verið að leita að nýju yfirheiti.

Safnið hefur umsjón með menningarminjum í Reykjavík og ber ábyrgð á söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknum og miðlun á afar fjölbreyttum safnkosti.  Um er að ræða muni, hús, ljósmyndir og minjar tengdum sjómennsku o.fl. sem eru einkennandi fyrir menningararf borgarinnar og varpar ljósi á sögu hennar og menningu. Safnið ber jafnframt ábyrgð á skráningu fornleifa, húsa og mannvirkja, rannsóknum og eftirliti og er ráðgjafi borgaryfirvalda um verndun menningarminja í Reykjavík og um önnur menningarsöguleg verkefni.

Safnið verður nútímalegt safn borgarbúa í tengslum við alla íbúa Reykjavíkur og mun jafnframt bjóða upp á aðlaðandi menningartengda þjónustu sem á erindi jafnt við íbúa sem og gesti Reykjavíkur og styrkir ímynd borgarinnar.

Nú leitum við liðsinnis borgarbúa, um hugmynd að nafni á safnið sem er lýsandi fyrir fjölbreytta starfsemi stofunarinnar og þjónustu. Ef þú ert með hugmynd að nafni, sendu hana á netfangið hugmynd@reykjavik.is, ásamt einföldum rökstuðningi fyrir 1. apríl 2014.

Sérstök nafnanefnd fer yfir allar hugmyndir og verðlaun tengd safninu verða veitt fyrir 3 áhugaverðustu tillögurnar.

Glæsileg verðlaun eru í boði, m.a. Menningarkort Reykjavíkur fyrir tvo,  Ljósmyndabók Magnúsar Ólafssonar, sýningarrit Landnámssýningarinnar Reykjavík 871±2  og síðast en ekki síst, út að borða fyrir tvo (í Viðey, Víkinni, eða á Veitingastaðnum Tjörnin í Ráðhúsi Reykjavíkur).