Endurnýjuð Hverfisgata opnar í vikulok

Umhverfi Framkvæmdir

""

Framkvæmdir við Hverfisgötu eru á lokastigi en unnið hefur verið að endurgerð götukaflans frá Vitastíg að Snorrabraut. Síðasti áfanginn er nú á lokametrunum en hann er frá Barónsstíg að Snorrabraut. Mun sá kafli verða opnaður í lok vikunnar og lýkur þar með framkvæmdum við götuna í bili.

Gatan hefur nú verið endurnýjuð frá Klapparstíg að Snorrabraut. Í fyrra var unnið að framkvæmdum við götukaflann frá Vitastíg að Klapparstíg en á þessu ári hafa framkvæmdir staðið yfir frá Vitastíg að Snorrabraut. Skipt hefur verið um allar lagnir í götunni, lýsing endurnýjuð og allt yfirborð götu og gangstétta. Þá er búið að setja hita í gönguleiðir, hjólareinar og upphækkuð, steinlögð gatnamót. 

Upphitaðar hjólareinar eru beggja vegna götunnar, aðstaða til að leggja og læsa hjólum hefur verið bætt með varanlegum götugögnum auk þess sem trjágróðri hefur verið plantað á mörgum stöðum í götunni til að fegra umhverfið.

Eftir er að taka neðri hluta götunnar frá Klapparstíg að Lækjargötu í gegn en ekki hefur verið ákveðið endanlega hvenær ráðist verður í þær framkvæmdir.