Nýtt umsjónakerfi, meira gagnsæi og samráð fag- og hagsmunaaðila er meðal þess sem kveðið er á um í nýjum reglum um ferðaþjónustu fatlaðs fólks í Reykjavík, sem samþykktar voru á fundi velferðarráðs fimmtudaginn 4. desember.
Strætó ehf. mun áfram sjá um ferðaþjónustu fatlaðs fólks en fyrirtækið hefur innleitt nýtt umsjónarkerfi til að auðvelda þjónustuna. Það gerir notendum kleift að panta ferðir með tveggja klukkustunda fyrirvara í stað sólarhrings áður. Þjónustuver ferðaþjónustu fatlaðs fólks er opið frá sjö á morgnanna til tíu á kvöldin.
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu standa nú saman að ferðaþjónustu fatlaðs fólks og skapar það meira svigrúm í þjónustunni. Aðrar breytingar eru m.a. til að mæta kröfum um aukið gagnsæi í þjónustu, betra aðgengi upplýsinga fyrir notendur og þar af leiðandi betri möguleika á samráði um að þjónustan mæti ólíkum þörfum.
Kröfur til starfsmanna ferðaþjónustu verða auknar og þurfa allir sem þar starfa að sækja námskeið um þjónustu við fatlað fólk.
Í breyttum reglum Reykjavíkurborgar getur hver einstaklingur fengið að hámarki 60 ferðir á mánuði en þjónustumiðstöðvum velferðarsviðs er heimilt að veita fleiri ferðir til þeirra notenda sem eru virkir í íþróttum eða skipulögðu félagsstarfi. Umframferðir geta að hámarki verið 20 eða alls 80 ferðir á mánuði. Gjaldskrá miðast áfram við hálft almennt fargjald í strætó nema þegar fjöldi ferða fer yfir 60 á mánuði. Hver aukaferð kostar kr. 1.100.
Breytingarnar taka gildi 1. janúar 2015. Samráð var haft við hagsmunasamtök og réttindagæslumenn við gerð nýrra reglna.