Ánægja með nýja Hverfisgötu

Umhverfi Skipulagsmál

""

Góð mæting var í fræðslugöngu um Hverfisgötu sem farin var í tilefni framkvæmdaloka, en gatan hefur verið endurnýjuð frá Klapparstíg að Snorrabraut. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur og Hjálmar Sveinsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs fóru fyrir göngunni og gerðu sögu og framtíðarsýn Hverfisgötu góð skil.

Við lok göngunnar var gatan formlega opnuð. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Rósa Birgitta Ísfeld, söngkona og íbúi á Hverfisgötu og Rosmarý Bergmann hjá Stórum Stelpum klipptu á borða við góðar undirtektir viðstaddra.

Hverfisgatan hefur tekið miklum breytingum í gegnum tíðina. Hún var upphaflega aðalstígurinn í Skuggahverfi, gatan í hverfinu, en lengdist með árunum til vesturs og austurs. Gatan þótt oft illfær og var af þeim sökum stungið upp á að hún héti Leggjabrjótur. En tímarnir breyttust. Fyrsta gangstétt bæjarins var lög úr steinlímdum hellum upp Hverfisgötu og hún var einnig fyrsta gatan sem var malbikuð austan við Læk.

Við breytingarnar nú var haft að leiðarljósi  að tryggja öruggar, skilvirkar, þægilegar og vistvænar samgöngur fyrir alla, sem og að skapa fallegt umhverfi.  Niðurstöður þessara hugmynda og framkvæmda blasa nú við á Hverfisgötunni.

  • Steinlagnir og götutré skapa borgarstemningu.
  • Nýtt yfirborð götu og gangstétta.
  • Snjóbræðsla í gangstéttum, hjólareinum og gatnamótum.
  • Allar lagnir hafa verið endurnýjaðar.
  • Gatnamót eru steinlögð og eru í sömu hæð og gangstéttar.
  • Hjólareinar eru beggja vegna götu.
  • Upphækkaðar strætóbiðstöðvar auðvelda aðgengi í vagnana.
  • Hámarkshraði umferðar verður áfram 30 km/klst.