Vor og rómantík með Tríó Reykjavíkur, Kjarvalsstaðir, föstudag, 15 febrúar kl. 12.15
Menning og listir
Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari og Peter Maté píanóleikari.
Listasafn Reykjavíkur og Tríó Reykjavíkur bjóða reglulega upp á ókeypis hádegistónleikaröð á Kjarvalsstöðum. Tónleikarnir hafa fengið góð viðbrögð og jafnan margir sem hafa nýtt sér það einstaka tækifæri að hlýða á fremsta tónlistarfólk landsins í notalegu andrúmslofti.
Næstkomandi föstudag bíður Tróið upp á ljúfan vorboða og flytur hina sívinsælu Vorsónötu Beethovens og ástarljóð eftir tékkneska tónskáldið Joseph Suk.
Beethoven samdi 10 sónötur fyrir píanó og fiðlu og er Vorsónatan sú 5. í röðinni. Hún var samin um aldamótin 1800 og tilheyrir því fyrsta tímabili í tónsköpun Beethovens, en þeim er skipt niður í þrjú tímabil. Sónatan er tileinkuð greifanum Moritz von Fries. Þótt hann hafi lifað vel inn í 20 öldina þykir tónlist Joseph Suk er mjög rómantísk en hann var tengdasonur Dvoráks.
Efnisskrá:
L. van Beethoven: Sónata fyrir píanó og fiðlu op. 24 í F-dúr (Vorsónatan)
(1770-1827)
Allegro
Adagio molto espressivo
Scherso - Allegro molto
Rondo - Allegro ma non troppo
Josef Suk: Písen lásky/ Ástarljóð
(1874-1935)
Flytjendur eru þau Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari og Peter Maté píanóleikari. Tónleikarnir eru um 45 mínútur að lengd og tilvalið er að njóta girnilegra rétta á Kaffi Kompaníinu á Kjarvalsstöðum fyrir eða eftir tónleikana.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
TRÍÓ REYKJAVÍKUR
Tríó Reykjavíkur var stofnað árið 1988 af Halldóri Haraldssyni píanóleikara, Guðnýju Guðmundsdóttur fiðluleikara og Gunnari Kvaran sellóleikara. Árið 1996 tók Peter Máté píanóleikari við af Halldóri. Á ferli sínum hefur Tríóið komið fram á fjölmörgum tónleikum víða um Ísland og einnig farið í tónleikaferðir til Danmerkur og auk þess komið fram í Þýskalandi, Finnlandi, Prag og London og einnig leikið í hinu nýja tónlistarhúsi Grænlendinga. Hljóðritanir með leik tríósins hafa verið leiknar víða í evrópskum útvarpsstöðvum. Geisladiskur kom út árið 2000. Meðlimir tríósins eru allir kennarar við tónlistardeild Listaháskóla Íslands og er tríóið staðarkammerhópur skólans.
Tríóið fór í sína fyrstu tónleikaferð til Bandaríkjanna árið 2003, þar sem það kom m.a. fram í beinni útsendingu á klassísku útvarpsstöðinni í Chicago. Sumarið 2006 fór Tríó Reykjavíkur í tónleikaferð til Suður-Frakklands. Tríó Reykjavíkur var útnefnt tónlistarhópur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2007 og hlaut þá jafnframt þriggja ára styrk frá borginni til starfsemi sinnar.