Út er komin ljóðabókin Nú er hann beinagrind upp í himninum. Ljóðskáldin eru börn í leikskólanum Garðaborg sem hafa skrifað ljóðin undir leiðsögn Eyglóar Idu Gunnarsdóttur leikskólakennara.
Börnin hafa fengið fræðslu um ljóðasmíði og hvernig þau spretta úr þeirra eigin huga. Þau fengu að vita að ljóð eiga sér fá takmörk og í þeim er allt mögulegt. Ljóðin eru smíðuð á árunum 2012-2013 og eiga það sameiginlegt að vera einlæg, falleg og skemmtileg.
Í gegnum ljóðagerð má skyggnast inn í hugarheim barnanna. Þau segja frá því sem þeim liggur á hjarta; því sem þau hafa upplifað eða því sem þau vilja upplifa. Ljóðagerð getur einnig haft jákvæð áhrif á málþroska barna þar sem þau þurfa að leita eftir orðum og raða þeim í setningar.
Flugeldar
Það heyrist hátt í flugeldum
og ég er hræddur við þá
það heyrist hærra í þeim
en mömmu
Það eru alls staðar flugeldar
um áramótin
höf. Jóhann Fróði Ásgeirsson
Hundur
Fjórir fætur.
Svartur.
Einu sinni
var ég með hund.
Hann var svartur
með mörg hár
og með fætur.
Núna er hann beinagrind
uppi í himninum.
Núna er hann dáinn.
Greyið.
Hann langaði ekki
að vera dáinn.
Höf. Kári Víðisson
Snjókarl
Ég set töfraduft
á snjókarl
svo hann verður lifandi
Ég get leikið við hann
við getum verið
bestu vinir
og farið í feluleik
og eltingaleik
Ef það kemur sól
þá bráðnar hann
og verður vatn
og ég get ekki
leikið við hann
Höf. Júlía Pálmadóttir