Snjalltæki í skólastarfi – stefnumótun til framtíðar
Ómar Örn Magnússon, aðstoðarskólastjóri í Hagaskóla, hefur unnið greinargerð fyrir skóla- og frístundaráð um kosti þess og hindranir að innleiða spjaldtölvur í skólastarfi í Reykjavík. Hann kynnti niðurstöður sínar fyrir ráðinu í gær. Í þeim kemur m.a. fram að nauðsynlegt sé að marka stefnu um þráðlaust net í leik- og grunnskólum borgarinnar til að taka megi fyrsta skrefið í að nota spjaldtölvur og snjalltæki í skólastarfi. Þá kemur fram í greinargerð hans að spjaldtölvur séu hentug tæki í einstaklingsmiðuðu námi og að þau auðveldi fjölbreytt og sveigjanlegt nám.
Skóla- og frístundaráð bókaði eftir kynninguna m.a.:
Þessar niðurstöður Ómars Arnars Magnússonar eru dýrmætar, enda nauðsynlegt að skólastarf taki mið af raunveruleika og reynsluheimi skólabarna samtímans. Skóla- og frístundaráð telur mikilvægast að:
1. Tryggja að upplýsingatækni og innleiðing nýs tæknibúnaðar sé nýtt í forvarnarstarfi og fræðslu um ábyrga hegðun og samskipti.
2. Starfshættir verði endurskoðaðir og tækifærin nýtt til að fara nýjar leiðir í skólastarfi.
3. Leggja áherslu á símenntun og starfsþróun á sviði upplýsingatækni sem og fræðslu um þá miklu möguleika sem felast í nýtingu vefsins í skóla- og frístundastarfi barna.
4. Nýta ný tæki og nýjar hugmyndir til að efla hæfni barna til að taka á móti og vinna úr upplýsingum, hæfni til að takast á við fjölbreytt og skapandi viðfangsefni og hæfni til samvinnu.
5. Tryggja að borgin sé í fararbroddi í þróun og notkun upplýsingatækni, snjalltækja og opins hugbúnaðar í skóla- og frístundastarfi.
Á dögunum veitti skóla- og frístundaráð þróunarstyrki, m.a. með áherslu á aukna notkun upplýsingatækni í skóla- og frístundastarfi. Meðal verkefna sem fengu þróunarstyrk var eitt sem miðar að því að útbúa svokallað ,,app" fyrir útikennslu í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi, verkefni um kennslu í forritun, gagnvirk málfræðiverkefni og rafrænar verkmöppur í bloggformi. Þá fengu styrk verkefni sem miða að því að innleiða snjallsímaforrit til að halda utan um skipulag náms og þróa tölvuleik fyrir Ipad með fimm ára börnum.
Sjá greinargerð Ómars Arnars Magnússonar um notkun á spjaldtölvum í skólastarfi