Gangandi og hjólandi vegfarendum fjölgar á svæðum þar sem bæði öruggt og skemmtilegt er að ganga og hjóla. Aftur á móti eru fáir á ferli þar sem ekki er gert ráð fyrir gangandi eða hjólandi. Í áætlun um endursköpun Reykjavíkur sem hjólaborgar er gert ráð fyrir breytingum á Borgartúni og standa þær framkvæmdir nú yfir. Markmiðið er að breyta ásýnd götunnar og skapa vinsamlegt umhverfi fyrir þá sem vilja tileinka sér grænar ferðavenjur.
Framkvæmdir standa nú yfir frá Katrínartúni að Sóltúni. Ný gangstétt verður lögð sunnan götunar og þær eldri endurnýjaðar. Nýstárlegt útlit og munstur verður á stéttunun. Þá verða hjólastígar með einstefnu lagðir báðu megin götunnar að Sóltúni en vestan Katrínartúns verður hjólastígur sunnan götunnar. Gróður mun aðskilja götur og hjólastíga og skipt verður um ljósastaura. Auk þessa verður fjórum miðeyjum bætt við til að þjóna gangandi vegfarendum sem vilja þvera götuna. Áætluð verklok eru um miðjan nóvember 2013.
Bílastæði og ósamstæðar byggingar einkenna Borgartúnið og er til tilvalið að lífga upp á það með munstri í gangstéttum, gróðri og lituðum hellum ásamt nýstárlegum ljósastaurum. „Þetta er gert til að gefa götunni nýtt heildaryfirbragð og gera hana lokkandi fyrir gangandi og hjólandi“, segir Hildur Gunnlaugsdóttir arkitekt á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, sem átti hugmyndina að gangstéttarmunstrinu, „að er gaman að hægt að gera eitthvað skemmtilega öðruvísi úr hefðbundum hellum sem því að raða þeim saman á óhefðbundinn hátt“.