77 bjarkir hafa verið gróðursettar í lundinum til minningar um fórnarlömb voðaverkanna í Ósló og Útey 22. júlí 2011, ein fyrir hvert þeirra.
Birkitrén eru afkomendur norskra og íslenskra birkitrjáa. Einnig hafa átta reynitré verið gróðursett innst í reitnum og tákna þau Norðurlöndin fimm og sjálfsstjórnarríkin þrjú; Grænland Færeyjar og Álandseyjar. Í miðjum lundinum er hringur með fjórum bekkjum í höfuðáttirnar fjórar og eru á þeim áletranir til minningar um voðaverkin í Noregi.
Minningarlundurinn er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Norræna félgsins, Norræna hússins, Háskólans, Landmótunar sf og bókaútgáfunnar Draumsýnar. Þorvaldur S. Þorvaldsson arkitekt var hvatamaður að lundinum og hélt hann utan um framkvæmdina.
Við opnun minningarlundarins flutti Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, ávarp og sagði m.a. að það væri bæði heiður og sjálfsagður vináttuvottur af hálfu Reykvíkinga að hlúa vel að þessum reit til framtíðar. Einnig flutti Dag Wernö Holeter, sendiherra Norðmanna á Íslandi, ávarp.