27. Listahátíð í Reykjavík var sett í dag. Fjölmenni var viðstatt setningu hátíðarinnar á miðbakka Reykjavíkurhafnar til að sjá og heyra verkið Vessel Orchestra, tíu mínútna verk Lilju Birgisdóttur, þar sem notast var við flautur skipanna í höfninni. Listahátíð stendur til 2. júní og teygir sig inn í listasöfn, bókasöfn, tónleikasali, bakgarða og borgarlandið. Á dagskránni eru hátt í sextíu viðburðir með þátttöku um sex hundruð listamanna frá yfir þrjátíu löndum.
Fjöldi nýrra verka er unninn sérstaklega að beiðni hátíðarinnar. Skipin í höfninni verða að hljóðfærum, Eldborgarsalur Hörpu lætur í sér heyra í orðsins fyllstu merkingu, ný íslensk leikverk fæðast í bókasöfnum borgarinnar eftir lokun og tónskáld, leikarar, myndlistarmenn og þungarokkssveit mætast í eina og sama verkefninu, lifandi gjörningasýningu. Margbreytileiki skynjunar og upplifun áhorfenda er einnig í fyrirrúmi: Tónleikar í niðamyrkri, í flygilrútu, í maraþonflutningi, hljóðlaust kórverk og gjörningur með þátttöku áhorfenda eru meðal þess sem gestir hátíðarinnar geta upplifað.
Á laugardag opnar Elsa Yeoman yfirlitssýningu á verkum Magnúsar Pálssonar í Listasafni Reykjavíkur. Sýnt verður nýtt verk eftir Magnús Stuna sem er allt í senn, kórverk, skúlptúr og orgelverk. Samstarfsmenn Magnúsar í verkinu eru Árni Páll Jóhannsson, Björgvin Tómasson, Pétur Magnússon og Hörður Bragason sem stjórnar Íslenska hljóðkórnum.
Nánari upplýsingar um dagskrá Listahátíðar í Reykjavík má sjá á heimasíðu: www.listahatid.is.