Dýrin í Hálsaskógi víðar en í Þjóðleikhúsinu

Skóli og frístund

""

Tíu ára stúlkur í Fossvogsskóla ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Þær frumsýndu Dýrin í Hálsaskógi í dag og er það önnnur leiksýningin sem þær setja upp í fullri lengd. Hitt leikritið var Skilaboðaskjóðan eftir Þorvald Þorsteinsson og tókst sú sýning mjög vel hjá þeim.

Mikil eftirvænting ríkti í íþróttasal Fossvogsskóla síðdegis þegar frumsýningin nálgaðist, en áður var leikritinu rennt fyrir leikskólabörn úr Kvistaborg sem skemmtu sér konunglega. Seinni sýningin var fyrir foreldra og skólafélaga.



Gunnhildur Halla Carr í frístundaheimilinu Neðstalandi, hefur leikstýrt báðum leiksýningum stúlknanna og haft yfirumsjón með uppfærslunum, en aðrir starfsmenn lagt hönd á plóginn.

Augljóst er að mikill leiklistaráhugi hefur kviknað hjá þessum skemmtilega stúlknahópi í frístundastarfinu í Fossvogsdal. Þær leika, syngja og dansa af mikilli innlifun og hafa með þessum tveimur sýningum kynnst vel góðum leikhúsverkum og öllum verkþáttum við uppfærslu á leikverki.