Borgarstjóri hefur fyrir hönd Reykjavíkurborgar undirritað Nordic Built sáttmálann en hann hefur það markmið að flýta þróun sjálfbærra byggingalausna. Undirritun er ekki skuldbinding en hún er yfirlýsing um að borgin ætli að fylgja meginreglum sáttmálans sem er í samræmi við áherslur borgarinnar í umhverfis- og skipulagsmálum.
Með því að staðfesta sáttmálann mun Reykjavíkurborg öðlast skýrari sýn á mannvirkjagerð á sínum vegum auk þess að senda skilaboð til annarra um þær áherslur og viðmið sem borgin hefur í þessum geira. Þetta er tækifæri til framþróunar í rekstri núverandi bygginga borgarinnar og dregur úr kostnaði. Auk þess að opna fyrir aðgang að breiðri þekkingu í vistvænni mannvirkjagerð mun borgin með staðfestingu sinni leggja lóð sitt á vogaskálarnar í eflingu samstarfs og nýsköpunar þvert á landamæri.
Sáttmálinn felur í sér 10 leiðarljós fyrir norrænan byggingariðnað við þróun samkeppnishæfra lausna í vistvænni mannvirkjagerð. Þau eru að skapa manngert umhverfi sem:
- Er hannað er fyrir fólk og eykur lífsgæði
- Eykur til muna sjálfbærni í byggingariðnaði sem rekja má til nýsköpunar og góðrar þekkingar
- Sameinar borgarlíf og gæði náttúrunnar
- Nær markmiðinu um enga losun á vistferlinu
- Er hagnýtt, snjallt og fagurfræðilega aðlaðandi, byggt á norrænni hönnunarhefð eins og hún gerist best
- Er sterkbyggt, varanlegt, sveigjanlegt, sígilt og endingargott
- Nýtir staðbundnar auðlindir og er lagað að staðháttum
- Er skapað og viðhaldið í gagnsæju samstarfi þvert á landamæri og greinar
- Styðst við lausnir sem staðfæra má og nota um allan heim
- Bætir hag fólks, atvinnulífs og umhverfisins
Sterkur pólitískur vilji er á Norðurlöndunum um sáttmálann og með honum verður til þekking í heimsklassa þar sem þjóðirnar munu deila grundvallargildum um mannvirkjagerð.
Nordic Built verður unnið í þremur áföngum á árunum 2012-2014 sem allir miða að því að Norðurlöndin nái markmiðum sínum um að vera leiðandi í nýsköpun, grænum hagvexti og velferð.
Í dag hafa 98 aðilar staðfest sáttmálann þar á meðal 17 íslenskir og má þar nefna sem dæmi Fasteignir ríkissjóðs, menntamálaráðuneytið og innanríkisráðuneytið. Kaupmannahöfn, Lundur, Albertslund og Reykjavík eru meðal sveitarfélaga sem hafa undirritað sáttmálann.