Snjóhreinsun í fullum gangi í öllum hverfum

Vélheflar, stórvirkar vélskóflur, traktorar og fleiri tæki eru við snjóhreinsun í öllum hverfum borgarinnar.  Í dag eru 65 starfsmenn Reykjavíkurborgar og verktaka á hennar vegum við störf og hafa þeir 41 tæki til afnota.  Fyrstu vaktir fóru á göturnar klukkan fjögur í nótt og síðan hefur hvert verkefnið tekið við af öðru.  Í dag er áfram unnið við að fjarlægja snjóhauga sem hafa safnast upp.



Fyrstu vaktir fóru út klukkan fjögur í nótt til snjóhreinsunar og hálkuvarna gatna- og gönguleiða í samræmi við forgangsröðun í snjóhreinsun. Farið er á stofnbrautir og helstu umferðargötur eftir þörfum í dag.



Vegheflar og stórvirkar vélskóflur (payloaderar) eru notaðir í húsagötum við að ná niður hryggjum en þau tæki eru það eina sem vinnur á hörðum klakanum. Í dag er unnið í Grafarholti, Efra-Breiðholti, Smáíbúðahverfi, Háaleiti, Norðurmýri, Túnum, Hlíðunum, Melum, Högum, miðbæ og Þingholtunum.  Átta heflar og níu stórvirkar vélskóflur eru í notkun á vegum Reykjavíkurborgar.



Snjóhreinsun og söndun á göngustígum eru í föstu ferli sem og aðkomuleiðir að biðstöðvum strætó. Níu traktorar eru á göngustígum um alla borg. 



Í gær var settur aukinn kraftur í að flytja á brott stærstu snjóhaugana sem myndast hafa við snjóhreinsun liðinna vikna og er þeirri vinnu haldið áfram í dag.   Ráðist er á haugana þar sem þeir eru hæstir og mest til trafala.  Í dag er unnið við flutning á snjó frá Langholtsvegi, Laugavegi,  Egilsgötu og Gunnarsbraut. Eins er unnið að snjóhreinsun á stofnanalóðum. Til þessara verka eru notaðar sjö gröfur og fjórir vörubílar.



Mjög góð samvinna hefur verið við lögreglu, slökkvilið og aðra viðbragsaðila. Fulltrúar Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu funda nú reglulega með lögreglu, slökkviliði og Neyðarlínunni um hreinsunarstarfið enda mikið öryggisatriði að vel sé staðið að málum.  Miðlað er til lögreglu upplýsingum um bíla sem eru fyrir og geta skapað hættu og hefur þurft að fjarlægja kyrrstæða bíla. Íbúar eru hvattir til að vera eingöngu á ferð á bílum með góðum vetrardekkjum og eins huga að því að bílar séu ekki fyrir snjóruðningstækjum sem víða komast illa að til hreinsunarstarfa. Illa staðsettir bílar hafa tafið hreinsunarstarf og dæmi eru um í nokkrum húsagötum að stjórnendur snjóruðningstækja hafi þurft frá að hverfa.



Margir íbúar hafa leitað til hverfastöðva Reykjavíkurborgar og náð sér í salt og sand til að bera á einkalóðir og innkeyrslur. Sjá staðsetningu hverfastöðva.

Nánari upplýsingar um snjóhreinsun og hálkueyðingu.