Rómantískt mannafl

Margir þekkja Þórunni Erlu- og Valdimarsdóttur, rithöfund og sagnfræðing, sem konuna á hjólinu því að hún hefur hjólað flestra sinna ferða frá árinu 1973. Þetta er líka lífstíll sex systkina hennar og fjölskyldna þeirra, því þau áttu foreldra sem voru gefin fyrir sprikl. „Þegar ég var lítil þótti skrýtið að fara ferða sinna á hjóli og eftir því tekið, því þá hjóluðu bara börn. Hörður Bergmann bjó í næsta húsi og hjólaði, og því var hvíslað að hann væri kommúnisti og í barnhausnum rann þetta saman og var ansi rautt. Maður lærði sem sagt að hjóla sem barn, án þess að eiga sinn hjólhest sjálfur, hjól fór milli systkina eins og garmarnir. Hjá mér rann fyrst upp hjólaöld þegar ég fór að læra í Lundi í Svíþjóð, því þar í laufskógabeltinu hjóla allir. Þar erfði ég reiðhjól frá Jóni Júlíussyni leikara. Þetta var sérstakt, að láta næsta Íslendingi eftir hjólið sitt þegar hann flutti heim. Fyrir tilviljun urðum við góðvinir löngu síðar. Enskt máltæki talar um að fara í skó einhvers, ég fór sem sagt á hnakk Jóns Júlíusar og hef verið þar síðan.“

Þórunn og Eggert Þór Bernharðsson maður hennar bjuggu sín fyrstu ár í  Hlíðunum og hún hjólaði lengi vestur í Háskóla Íslands. Fljótt fæddist sonur og þá var keypt barnasæti á hjólið, hjólað með Gunnar Theodór í barnaheimilið Efrihlíð og áfram vestur í skóla. Síðdegis gerð innkaup á hjólinu þar sem nú er fjölmiðlarisinn 365, einn poki fór í barnastólinn og tveir á stýrið.  Mannaflið var notað í staðinn fyrir hestafl bílsins. Dagurinn rammaður inn með draumlyndu svifi milli staða í frísku lofti.  Fæturnir sterkir og skapið gott. Lilja systir hennar hjólaði upp ferlega brekku á þessum tíma, upp Nóatúnið með Völu dóttur sína í baksæti og franska hornið á bakinu.

Þórunn segir umferðina aldrei hafa verið vandamál, menn hafi notað tómar gangstéttar bæjarins, því að allir voru þá í bíl eða strætó. Maður bara setti niður fætur til að hjálpa hestinum niður af stétt við götuna. „Í dag er þetta auðveldara því alls staðar er búið að slípa kantana“ .

Álag að eiga bíl

Þórunn segir að fátt sé yndislegra en að hjóla og nefnir í því sambandi strandlengjuna í Reykjavík, það sé eins og að fljúga að svífa þar við opið haf og upplifa aldrei sama veður og náttúru. Hún leggur áherslu á að það séu forréttindi að komast allra sinna ferða hjólandi því bílum fylgi lúmskt vesen. „Það er dýrt að eiga bíla og fólk þarf að hafa mikið fyrir rekstrinum, fylla á bensín, fara í skoðun, greiða tryggingar og viðhald auk bílastæðaklúðurs og spennu í umferðinni. Maður er ekki einungis að spara heldur kemst nær eðli sínu og náttúru með því að hjóla“, segir hún. „Við höfum í milljónir ára verið útivistardýr og maður á þyngd sína af gulli í heilbrigðum líkama.?

Liðka og teygja líkamann

Þórunn bendir á að í öllu skiptist menn í ólíka hópa og þannig sé það líka með hjólreiðar. Sumir gera þetta að íþrótt og tómstundagamni og noti svo bílinn til allra ferða. Sumt fólk elskar hraða og flottar græjur og lifir inni í klukkunni alltaf að mæla hreyfingu sína í sekúndum og mínútum. Sjálf segist hún aldrei telja ferðirnar þegar hún syndir, bara tæma hugann og skynja vatnið og líkamann. „Helst vil ég hreyfa mig við tónlist. Evrópsk leikfimi er hálf spastísk því hún spratt upp úr þjálfun hermanna. Afrísk og austurlensk hreyfilist vinnur miklu betur og dýpra með líkamann. Maður verður sterkur af því að hjóla en það vantar teygjur og mýkt í hreyfinguna, neðsti liður í bakinu á mér kalkaði þegar ég var 35 ára, því bakið klesstist saman á hjólasætinu og ég hefði aldrei gert neinar teygjur.  Þá fékk ég nýtt bak í Kramhúsinu með dansleikfimi og afrískum dönsum. Vestræn menning ungar út skelfilega veikum bökum. Það sem gildir er að hreyfa alla vöðva baksins og teygja og lengja hrygginn og rófuna“.

Til viðbótar við að hjóla mælir Þórunn því með dansleikfimi og sundi. Hreyfingin verður að vera fastur hluti af lífi okkar. Klókt er að huga að botnteygjum á klósettinu svo maður haldi æsku í neðra, teygja skanka við sjónvarpið og dansa í eldhúsinu. Góð hreyfing er besta heilsutrygging sem völ er á. “Við erum heimablind - sjáum ekki verðmætin í borginni og notum ekki nóg sundlaugarnar. Í vetur ætla ég að hjóla í Vesturbæjarlaugina á kvöldin og njóta þess að liggja í heitu pottunum og röfla í stað þess að vera afvelta við sjónvarpið. Sjáumst í heita pottinum", segir Þórunn og brosir.

Hjóli stolið

Þórunn mælir með að fólk samnýti bíla. Stórfjölskyldan eða vinahópurinn getur samrekið bíl og dregið úr kostnaði og mengun. Sjálf segir hún sína fjölskyldu bara aka í lengri ferðir og helst til að fara út á land. Hún er nýorðin amma og hlakkar til að festa barnasæti aftur á hjólið sitt. Segir allir séu flottir á hjóli, það sem sé raunverulega flott sé að líða vel.  Auk þess sem maður geri náunganum ekki betri greiða en að vera asnalegur. Að lokum mælir Þórunn gegn því að fólk sé á dýrum hjólum svo það verði ekki spælt ef þeim er stolið. Hjóli Eggerts, (sjá mynd) sem Valdimar sonur þeirra var á var stolið föstudaginn 15. september sl. „Valdi var að skoða stjörnurnar við Sólfarið og gleymdi að læsa hjólinu. Einhver helgarpúki kippti hjólinu undir sig. Viðkomandi var bara að flippa, að líkindum, svo við biðjum fólk að hafa augun opin. Ef einhver veit um hjólið má hann hringja (sími 699 1271) eða skilja það eftir fyrir innan hliðið á Bárugötu 5. Ef hjólið snýr aftur er allt fyrirgefið því það er svo gaman af því sem endar vel“, segir Þórunn Erludóttir að lokum.

 

Viðtalið var tekið á kaffihúsi og á hanka tepokans voru þessi skilaboð:

Even a journey of a thousand miles starts with the first step - (Jafnvel þúsund mílna ferð hefst á einu skrefi.) 

Viðtalið er birt í tilefni af evrópskri samgönguviku dagana 16. - 23. september. Á samgönguviku er fólk hvatt til þess að tileinka sér visthæfa samgöngumáta og skilja einkabílinn eftir heima. 

Ljósmyndasamkeppnin ,,Á réttri leið – svona ferðast ég“ er opin á fasbókarsíðu Reykjavíkurborgar og eru allir hvattir til að taka myndir af sínum samgöngumáta.