Óþekkti embættismaðurinn afhjúpaður

Æðsti embættismaður Reykjavíkurborgar, Jón Gnarr, afhjúpaði í dag á nýjum stað útilistaverkið Óþekkta embættismanninn eftir Magnús Tómasson myndlistarmann. Embættismaðurinn er nú fyrir framan Iðnó og steðjar inn í ráðhúsið. Listamaðurinn er kampakátur með nýja staðsetningu og segir  ánægjulegt að óþekkti embættismaðurinn sé kominn á svo fallegan stað og nálægt ráðhúsinu; „Nú er hann kominn af stallinum og niður á jörðina.“

Verkið var nýlega flutt að Tjarnarbakkanum en það hafði um árabil staðið í garði á bak við Hótel Borg þar sem það þótti ekki njóta sín sem skyldi.

Óþekkti embættismaðurinn er málmskúlptúr úr bronsi og basalti. Verkið var gert árið 1993, en keypt og sett upp af Reykjavíkurborg árið 1994. Magnús Tómasson var einn af stofnendum SÚM-listahópsins sem lét mikið að sér kveða á sjöunda og áttunda áratugnum. Verk eftir hann hafa víða verið sett upp, þar á meðal við flugstöð Leifs Eiríksson þar sem Þotuhreiðrið blasir við farþegum sem eiga leið þar um.

Að lokinni formlegri athöfn bauð borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr, gestum að þiggja kaffi og kleinur í Ráðhúsi Reykjavíkur.