Langholtsskóli sextugur

Hátíð verður í Langholtsskóla laugardaginn 29. september en þá fagnar skólinn 60 ára afmæli sínu. Afmælishátíðin hefst klukkan 11 og stendur fram eftir degi. Nemendur sýna afrakstur af þemavinnu um sögu skólans sem gefur skemmtilega innsýn í skólastarfið fyrr og ný. Gamlir nemendur, starfsmenn, foreldrar og aðrir velunnarar Langholtsskóla eru boðnir velkomnir á hátíðina á þessum merku tímamótum.

Skólasaga

Byggð hófst í Langholti og nágrenni árið 1918 en þá reis bærinn Langholt þar sem nú mætast Holtavegur og Sunnuvegur. Næstu áratugina fjölgaði íbúum á svæðinu og byggðin þéttist við Langholtsveg. Er leið á fimmta áratug aldarinnar var orðið aðkallandi að byggja skóla í hverfinu þar sem langt þótti fyrir börnin að sækja kennslu í Laugarnesskóla. Árið 1948 var tekin ákvörðun í bæjarstjórn um að reisa skóla sem þjóna myndi Langholtshverfi. Húsameistararnir Einar Sveinsson og Gunnar Ólafsson teiknuðu skólann sem var tilbúinn haustið 1952. 

Langholtsskóli var vígður föstudaginn 14. nóvember þetta sama ár. Hann þótti allur hinn glæsilegasti og vel búið að nemendum. Í frétt í Morgunblaði sagði m.a.: „Hvert barn fær sitt eigið borð sem smíðað er samkvæmt niðurstöðum rannsókna sænsks læknis og enskra rannsókna, 30 börnum er ætlað rúm í hverri stofu en stofur eru málaðar í mismunandi litum og eru allar hinar glæsilegustu að frágangi."

Miklar breytingar hafa orðið á Langholtsskóla frá stofnun hans og hefur fjórum sinnum verið byggt við hann. Aðalbyggingin var lengd árið 1963, árið 1967 bættist ný B-álma við og hústi hún m.a. kennslueldhús, húsvarðaríbúð, sem þá þótti sjálfsögð við hvern skóla,  auk fimm kennslustofa.  Árið 1994 fékk húsvarðaríbúðin og aðliggjandi stofa nýtt hlutverk þegar svokölluð skóladagvist var tekin upp eftir hefðbundinn skóladag.  Nú eru bókasafn, tölvustofa og námsver auk fjögurra almennra kennslustofa í B-álmunni. Árið 1974 var skólinn enn stækkaður í kjölfar nýrra laga þar sem kveðið var á um að lengja skólagöngu nemenda um eitt ár og var svokölluð C-álma tekin var í notkun 1976. Hún hýsir að mestu almenna kennslu í unglingadeild skólans.  

Í kjölfar ákvörðunar um einsetningu grunnskóla hófust umræður um mötuneyti í skólum borgarinnar. Hugmyndasamkeppni var haldin um byggingu mötuneytis og hátíðarsals árið 2001. Tillaga arkitektastofunnar Arkþing varð hlutskörpust en salurinn og mötuneytið voru tekin í notkun árið 2005. Auk viðbygginga hafa verið gerðar miklar endurbætur á innviðum skólans, endurnýjaðar list- og verkgreinastofur á jarðhæð, stjórnunarálman tekin í gegn og nýtt bókasafn orðið til. Skólalóðin hefur einnig gengið í endurnýjun lífdaga og þykir einhver sú glæsilegasta í borginni.