Klifurveggur og sykurpúðar við Andapollinn í boði skáta

Skátastarf er skemmtilegur vettvangur fyrir börn og ungmenni þar sem þeim gefst kostur á að halda á vit ævintýranna með vinum sínum.  Fimmtudaginn 13. september næstkomandi mun skátafélagið Segull halda kynningardag á skátastarfi við Andarpollinn í Seljahverfinu. Þar gefst börnum úr Breiðholti og fjölskyldum þeirra kostur á að spreyta sig á klifurvegg, grilla sykurpúða, sigla um á kanóum og taka þátt í alls kyns skátaþrautum.

Skátafélagið Segull í Breiðholti hefur boðið upp á spennandi skátastarf fyrir börn frá 8 ára aldri í ríflega 30 ár.  Skátafélagið státar af ungum og metnaðarfullum foringjum sem styðja við skátana í vetrarstarfinu, sem byggist á vikulegum fundum auk dagsferða og lengri ferðalaga.  Skátarnir vinna krefjandi verkefni og rækta með sér frumkvæði, sjálfstæði og leiðtogahæfileika.

Allir eru velkomnir að koma og kynna sér starf Seguls við Andapollinn næstkomandi fimmtudag kl. 17, en þar munu foringjar sitja fyrir svörum.  Nánari upplýsingar um skátafélagið Segul.