Hreystiverk við höfnina

Vinna við nýtt útiæfingasvæði við gamla slippinn hófust á sunnudag og voru það félagar í bardagaíþróttafélaginu Mjölni sem tóku þar hraustlega til hendinni. Svæðið verður öllum opið og mun gæða hafnarsvæðið nýju lífi.  Verkið er unnið í samvinnu við Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir, en það eru arkitektar hjá Stássi arkitektúr, Árný Þórarinsdóttir og Helga G. Vilmundardóttir, sem leggja línur um útlit svæðisins.

Góð stemning er fyrir hinu nýja útiæfingasvæði og leggja margir lóð á vogaskálarnir til að svæðið verði vel lukkað.  Á svæðinu verða einföld útiæfingatæki, grasfletir og setsvæði. Inn á svæðinu verða einföld og öðruvísi leiktæki fyrir börn og eins verða grasfletir nýttir til leikja. Endurnýting efnis er hluti að hugmyndafræðinni bakvið hönnunina en nýta á efni sem fellur til hjá fyrirtækjum í nágrenninu, s.s. kassa, tunnur og dekk.  Framkvæmdir eru að mestu unnar í sjálfboðavinnu og þar koma Mjölnismenn sterkir inn og  þá fjármagnar CCP æfingagrind sem sett verður upp. Önnur fyrirtæki hafa lagt til ýmislegt sem verður notað á svæðinu. 

Undir útiæfingasvæðið er lagt ónotað malarsvæði milli Slippsins og Sjóminjasafnsins um 4.500 fermetrar að stærð. Hluti svæðisins hefur verið notaður sem bílastæði, en í hönnunarhugmyndum er gert ráð fyrir afmörkuðu og vel skilgreindu bílastæði. Svæðið tengist vel nýjum göngustíg sem lagður var í sumar. Sjá eldri frétt:  Hafnarstígurinn – fjölbreytt gönguleið.  

Ítarefni: Kynning á útiæfingasvæði við höfina. Stáss arkitektúr tók saman. 10. 08. 2012.