Hlemmur framtíðarinnar
Undanfarnar vikur hefur hönnunarteymið Borgarmynd unnið hörðum höndum við margvísleg verkefni á Hlemmi til að efla mannlífið og skoða framtíðarmöguleika. Sett hefur verið upp setaðstaða fyrir 20 manns, fánaborg sem rammar inn Hlemm, sögu Hlemms síðustu 100 árin hefur verið gerð skil í máli og myndum og íslensk dýr í raunstærð máluð á stéttarnar og er það tilvísun í Náttúrufræðisafnið við Hlemm.
Með verkefninu ,,Bæjarhliðið Hlemmur“ vill hönnunarteymið Borgarmynd auka táknrænt gildi torgsins sem bæjarhlið miðbæjarins úr austurátt. Slíkt gerir Laugaveginn að sterkari heild og skapar mótvægi við vesturhluta miðbæjarins. Verði hugmyndir um að skiptistöð Strætó færist á BSÍ að veruleika mun eðli Hlemmtorgs breytast og því vert að skoða hlutverk Hlemmtorgs og hvernig það muni þjóna íbúum og vegfarendum miðbæjarins. Hönnunarhópurinn vinnur með þá hugmynd að Hlemmur framtíðarinnar sé mikilvæg upplýsingamiðstöð og sýningarsvæði fyrir Reykvíkinga og aðra gesti borgarinnar.
Verkefnið er hluti af verkefni Reykjavíkurborgar ,,Biðsvæði – Torg í biðstöðu“ sem gengur út á að nota tímabundnar lausnir til auka mannlíf og skoða möguleika svokallaðra biðsvæða sem víða finnast í borginni. Þetta er annað árið sem Hlemmsvæðið er tekið fyrir í verkefninu.
Samskiptasíða Borgarmyndar vegna bæjarhliðsins er www.facebook.com/baejarhlid.
Sjá nánar um biðsvæði / Torg í biðstöðu: www.reykjavik.is/biðsvæði og www.facebook.com/bidsvaedi.
Ljósmyndir tók Snorri Þór Tryggvason.