Gestasprettur í miðborginni

Í morgun hófst hófst hreinsunarátak í miðborginni undir yfirskriftinni Gestasprettur. Þá undirritaði Jón Gnarr borgarstjóri og fulltrúar rekstraraðila og Miðborgarinnar okkar nýjan Miðborgarsáttmála þar sem kveðið er á um hreinlæti, ábyrgð og öryggi. Jón Gnarr afhenti jafnframt fyrsta kústasettið og pensilinn til merkis um að hreinsunarátakið væri hafið.

Rekstraraðilar við Skólavörðustíg hafa á hverju sumri síðastliðin átta ár staðið fyrir hreinsunar- og fegrunarátaki og riðu þeir á vaðið í morgun, gróðursettu blóm og gerðu hreint fyrir sínum dyrum.

Átakið Gestasprettur miðar að því að hreinsa til og snyrta miðborgina sem best en von er á 700.000 erlendum gestum á næstu mánuðum. Miðborgin er jafnan fyrsta og/eða síðasti viðkomustaður ferðamannsins og fyrsta upplifun mótar sterklega álits hvers gests á landi og þjóð.Rekstraraðilar ætla því að sameinast um að gera hreint fyrir sínum dyrum í upphafi dags og í dagslok, sópa upp sígarettustubba eftir náungann og mála yfir veggjarkrot þar sem hægt er.

Átakið Gestasprettur mun standa fram á mánudag og munu starfsmenn Reykjavíkurborgar sækja ruslapoka við Laugarveg, Hverfisgötu, Skólavörðustíg og í Kvosinni.  Í framhaldinu verður efnt til vitundarvakningar um hreinar götur, gangstéttir og torg.

Miðborgarsáttmáli



Viðhorf:

• Sýnum fólki virðingu og bjóðum alla velkomna.

• Höfum jafnræði og mannréttindi að leiðarljósi í öllu okkar starfi.



Háttvísi:

• Tökum tillit til íbúa miðborgarinnar.

• Hugum að vellíðan og öryggi gesta.



Ábyrgð:

• Stöndum vörð um ímynd miðborgarinnar.

• Komum fólki í neyð ætíð til hjálpar.



Snyrtimennska:

• Höfum frumkvæði að hreinsun og fegrun.

• Erum í fararbroddi í umhverfisvænum siðum.



Þjónustulund:

• Erum ávallt reiðubúin að veita aðstoð og leiðbeiningar.

• Stuðlum að blómstrandi menningu og mannlífi.

* Virðum tilmæli um sameiginlegan opnunartíma



Við stöndum saman um að gera dvöl þína í miðborginni ánægjulega!