Frostheimar á flandri

"Frostheimar á flandri" er tilraunaverkefni í Frostheimum í Vesturbæ. Þar er tekið mið af áhuga og þörfum 8 - 9 ára barna. Á flandri takast Frostheimabörnin á við fjölbreyttari og meira krefjandi verkefni en yngri börnin. Gert er ráð fyrir að verkefnið standi a.m.k. fram að áramótum.

Verkefnið felst í því að hvetja börnin til útiveru og samveru og gefa þeim færi á að kynna sér borgina og nánasta umhverfi hennar. Hvert barn er í föstum hópi einn fastan dag í viku og fer þá á flandur þar sem tekist er á við spennandi og fjölbreytt verkefni úti við. Hver ferð býður upp á einstakt tækifæri til þess að kynnast Reykjavík og umhverfi hennar betur og læra að njóta þess sem náttúran við borgarmörkin hefur upp á að bjóða.

Fyrsta flandrið í Frostheimum hófst með sundviku. Það tókst með eindæmum vel og voru börnin sérdeilis ánægð með þessa skemmtilegu viðbót í frístundastarfinu. Í næstu viku verður farið í ratleik í Öskjuhlíðinni og fleiri skemmtilegar og spennandi vikur eru á teikniborðinu hjá börnum og starfsmönnum Frostheima, flandur sem miðar að því að skapa ævintýri í hversdeginum og fræða á fjölbreyttan hátt.