Fjárhagsaðstoð hækkar hjá Reykjavíkurborg um áramót

Velferðarráð Reykjavíkur hefur samþykkt tillögu um hækkun fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar til samræmis við samþykkt borgarstjórnar þar að lútandi frá 4. desember sl. 

Þann 1. janúar nk. munu grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar því hækka um 3,9%.

Grunnfjárhæð fyrir einstakling sem rekur heimili hækkar úr 157.493 kr. í 163.635 kr. á mánuði.  Grunnfjárhæð til hjóna/sambúðarfólks hækkar úr 236.240 kr. í 245.453 kr. á mánuði. Grunnfjárhæð til einstaklings sem býr með öðrum, leigir húsnæði án þinglýsts leigusamnings eða hefur ekki aðgang að húsnæði hækkar úr 132.696 kr. í 137.871 kr. á mánuði. Grunnfjárhæð til einstaklinga sem búa í foreldrahúsum hækkar úr 78.747 kr. í 81.818 kr. á mánuði. 

Velferðarráð samþykkti einnig að viðmiðunarmörk fyrir aðstoð sem hægt er að veita til foreldra sem fá fjárhagsaðstoð vegna barna á þeirra framfæri hækki um 3,9% eða úr 12.640 kr. í 13.133 kr. á mánuði.  

Frá janúar til september 2012 hefur Reykjavíkurborg greitt rúmar 1.965 milljónir króna í fjárhagsaðstoð til alls 3.686 íbúa í Reykjavík. Þar af fengu 2.986 fjárhagsaðstoð til framfærslu.

Í desember fá einstaklingar sem fengið hafa fjárhagsaðstoð til framfærslu sl. þrjá mánuði eða lengur greidda desemberuppbót sem nemur 25% af greiddri fjárhagsaðstoð. Jafnframt geta foreldrar sem fá fjárhagsaðstoð og hafa börn á framfæri sótt um sérstaka viðbótaraðstoð í desember vegna barna sem nemur kr. 12.640 fyrir hvert barn.

Rétt á fjárhagsaðstoð geta þeir átt sem eiga lögheimili í Reykjavík og hafa tekjur og eignir undir ákveðnum viðmiðunarmörkum grunnfjárhæða og uppfylla önnur skilyrði samkvæmt reglum borgarinnar um fjárhagsaðstoð. Við mat á rétti til fjárhagsaðstoðar er tekið tilliti til allra tekna umsækjenda og einnig til allra tekna maka.