Björn Axelsson ráðinn skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar
Borgarráð samþykkti í dag tillögu borgarstjóra um að ráða Björn Axelsson, landslagsarkitekt, í stöðu skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar.
Björn hefur starfað síðustu árin sem umhverfisstjóri skipulags- og byggingarsviðs. Hann hefur starfað innan stjórnsýslunnar í tvo áratugi og þekkir því vel starfsumhverfi opinberrar stjórnsýslu. Hann hefur unnið náið með Skipulagsráði og starfað jafnt með embættismönnum, stjórnendum og starfsmönnum Reykjavíkurborgar sem og kjörnum fulltrúum. Björn hefur stýrt verkefnum á sviði svæðis-, aðal-, og deiliskipulags, haft forgöngu um stefnumótun á sviði umhverfismála, deiliskipulags og aðalskipulags. Hann hefur auk þess starfað sjálfstætt við fjölbreytt skipulagsverkefni víða um land.
Björn hefur haldið fjölda fyrirlestra um umhverfis- og skipulagsmál á innlendum og alþjóðlegum ráðstefnum, málþingum og fundum. Einnig hefur hann ritað greinar í fagtímarit og er meðhöfundur í ritun Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016, 2001-2024 og 2010-2030.