Áttavitinn.is, allt um allskonar!

Jón Gnarr borgarstjóri opnaði í dag nýjan upplýsingavef fyrir ungt fólk í upplýsingamiðstöð Hins hússins. Vefurinn ber heitið Áttavitinn.is, allt um allskonar og með honum á að nýta möguleika internetsins til að ná betur til ýmissa hópa samfélagsins. Um er að ræða samvinnuverkefni Reykjavíkurborgar og Evrópuverkefnisins EGOV4U.

Borgarstjóri sagði í ræðu sinni að mikilvægt væri að miðla upplýsingum til ungs fólks á réttan og aðgengilegan hátt.

„Fólk þarf að geta fengið góðar og réttar upplýsingar um það sem það er að takast á við í lífinu hverju sinni, til dæmis varðandi leigu á íbúð, hvernig gera á leigusamning og hver réttindi manns eru í því sambandi. Það þarf að geta fengið réttar upplýsingar um fjármál, skatta, atvinnuumsóknir, kynlíf, barneignir og hvert leita skal ef á hjálp þarf að halda. Slíkar upplýsingar eru þess eðlis að maður hefur ekkert val, maður bara þarf þær. Þess vegna þarf að setja þær fram þannig að allir skilji og geti nýtt sér þær.“

Netið geymir gríðarlegt magn upplýsinga, en þó hefur það sýnt sig að eitt af hverjum þremur ungmennum lendir í vandræðum með að finna þær upplýsingar sem leitað er að. Áttavitanum er ætlað að taka saman á mannamáli svörin við öllum helstu spurningum sem kunna að brenna á ungu fólki og auðvelda því þannig að taka upplýstar ákvarðanir og velja sér jákvæða lífsleið.

Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Áttavitans www.attavitinn.is.