20 þúsund einstaklingar fengu þjónustu velferðarsviðs árið 2023

á árinu fengu meira en 20 þúsund einstaklingar þjónustu sviðsins. Arctic Images - Ragnar Th
Mynd sem sýnir fjölda fólks að njóta lífsins í sól og sumri á ströndinni í Nauthólsvík

Ársskýrsla velferðarsviðs fyrir árið 2023 er komin út. Velferðarsvið veitir borgarbúum umfangsmikinn stuðning og ráðgjöf en á árinu fengu meira en 20 þúsund einstaklingar þjónustu sviðsins.

Segja má að ársskýrslan endurspegli þær hröðu samfélagsbreytingar sem átt hafa sér stað á undanförnum árum í Reykjavík. Mesta fjölgun á notendum velferðarþjónustu á milli áranna 2022 og 2023 varð í flokki ráðgjafar og sérfræðiþjónustu, eða um tæp 20%. Þannig fengu 6.698 einstaklingar ráðgjöf eða sérfræðiþjónustu af einhverju tagi árið 2023, samanborið við 5.591 árið 2022. 

Þjónusta við fólk í heimahúsum var einnig umfangsmikil. Þannig fengu 6.267 einstaklingar þjónustu inni á heimili sínu, samanborið við 6.390 árið áður. Þá fengu 6.802 einstaklingar fengu húsnæðisstuðning af einhverju tagi. 

Ársskýrsla velferðarsviðs 2023

Umsóknir nú að stórum hluta rafrænar

Í Reykjavík eru fjórar miðstöðvar sem sinna hver sínum borgarhluta. Þar geta íbúar og starfsfólk Reykjavíkurborgar fengið þjónustu, upplýsingar, stuðning og ráðgjöf á sviði velferðar-, skóla- og frístundamála. Með skipulagsbreytingum í kjölfar samþykktar velferðarstefnunnar um mitt ár 2021 bættist Rafræn miðstöð við en hún hefur tvíþætt hlutverk; að sinna framlínuþjónustu við notendur með rafrænum leiðum og að sinna umbótum á velferðarþjónustu. Rafræn miðstöð hefur nú tekið við afgreiðslu flestra umsókna um velferðarþjónustu og svörun allra símtala og tölvupósta sem áður bárust hinum miðstöðvunum fjórum. Eins og fram kemur í ársskýrslunni er hlutfall rafrænna umsókna um fjárhagsaðstoð nú um 80%. 

Fjölbreytt þjónusta í mikilli þróun

Notendahópur velferðarþjónustu hefur stækkað og tekið breytingum á undanförnum árum. Mikið magn áhugaverðra upplýsinga er að finna í ársskýrslunni um þá þjónustu sem veitt er á velferðarsviði. Úr henni má til að mynda lesa að á árinu 2023:

  • voru 32% notenda þjónustu velferðarsviðs börn
  • voru 80% notenda heimahjúkrunar 67 ára og eldri
  • fór hver notandi akstursþjónustu fyrir eldra fólk að meðaltali 43 ferðir á árinu
  • bjuggu 515 einstaklingar í húsnæði fyrir fatlað fólk
  • fengu 4.456 einstaklingar fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg
  • bar fólk sem fær þjónustu frá velferðarsviði 59 mismunandi ríkisföng
  • var 120.071 máltíð send heim til fólks frá Vitatorgi 
  • tóku 624 einstaklingar þátt í virkni- og endurhæfingarúrræðum Virknihúss

Í ársskýrslunni er einnig að finna upplýsingar um velferðarsvið sem vinnustað. Óhætt er fullyrða að hann er afar fjölbreyttur en undir hann heyra 120 starfsstaðir og þar af sinna 77 sólarhringsþjónustu. Í ársskýrslunni eru jafnframt upplýsingar um rekstur sviðsins. Rekstrarniðurstaða velferðarsviðs fyrir árið 2023 var 42.836 milljónir króna, sem nam 27% af heildarrekstrargjöldum Reykjavíkurborgar það árið.