17. júní hátíðahöldin í Reykjavík 

Tufti túnfótur og sonur hans Drangskarfur í skrúðgöngunni á 17. júní í fyrra
Tufti ásamt lúðrasveit og þjóðhátíðargestum í skrúðgöngu á 17. júní 2022.

Á þjóðhátíðardaginn 17. júní verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá. Skrúðganga verður frá Hallgrímskirkju, tónleikar, götuleikhús, dansveisla, sirkus, leiktæki, matarvagnar og fornbílasýningar í Hljómskálagarði og á Klambratúni svo fátt eitt sé nefnt. 

Morgundagskrá á Austurvelli 

Hátíðarathöfn á vegum Alþingis og forsætisráðuneytisins hefst á Austurvelli kl. 11.10 en henni verður sjónvarpað og útvarpað á RÚV. Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, leggur blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða Jóns Sigurðssonar og forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir flytur hátíðarræðu. Fjallkonan flytur ávarp en ávallt hvílir leynd yfir því hver hún er þar til á hátíðarathöfninni.  

Að lokinni athöfn fer skrúðganga frá Austurvelli í kirkjugarðinn við Suðurgötu þar sem  Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar, leggur blómsveig frá Reykvíkingum á leiði Jóns Sigurðssonar forseta og Ingibjargar Einarsdóttur. Lúðrasveit Reykjavíkur leikur við athöfnina.  

Skrúðganga  

Klukkan 13.00 leiða Skátar glæsilega skrúðgöngu frá Hallgrímskirkju að hátíðarsvæðinu í Hljómskálagarði. Í skrúðgöngunni kennir ýmissa grasa og slæst risavaxinn haförn í hópinn, sirkuslistafólk leikur listir sínar og Lúðrasveitin Svanur leikur undir. Öllum er velkomið að taka þátt í skrúðgöngunni.  

Skemmtidagskrá í Hljómskálagarði og á Klambratúni

Skemmtidagskráin á 17. júní verður í Hljómskálagarði og á Klambratúni, auk þess verður boðið upp á dagskrá í nokkrum hverfum borgarinnar.  

Söngur, dans, sirkus, hoppukastalar og flamingóar verða á vappi í Hljómskálagarðinum. Hljómsveitirnar Bogomil Font og milljónamæringarnir, Flott, Langi Seli og skuggarnir og Inspector Spacetime spila á stóra sviðinu undir dyggri stjórn Gústa B. Á Klambratúni verður boðið upp á sýningu fallhlífastökkvara, Sirkus Ananas, matarvagnar og DJ Fusion Groove. Harmonikkuball verður svo í Ráðhúsi Reykjavíkur frá 15.00-16.30 fyrir þau sem vilja alvöru ball. 

Árbæjarsafn  

Þjóðhátíðargleði verður haldin í Árbæjarsafni og verður deginum fagnað með fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá sem hefst kl. 13 í Árbæjarsafni. Að vanda eru þjóðbúningurinn og þjóðdansar í öndvegi á þessum hátíðardegi og eru gestir hvattir til að mæta í eigin þjóðbúningi. Við Dillonshús verður heitt á könnunni og heimbakað góðgæti. 

Grafarvogur 

Haldin verður 17. Júní hátíð við Gufunesbæ í Grafarvogi frá klukkan 12:00-14:00. Skemmtidagskrá fyrir alla fjölskylduna. Útileiktæki, Vogabúar kenna tálgun við varðeld,  

Opnun hjólagarðsins við Gufunesbæ, pylsur og candyfloss og DJ úr félagsmiðstöðvum verður á svæðinu. Öll velkomin. 

Laugardalur 

Í tilefni þjóðhátíðardags Íslendinga og landsleiks milli Íslands og Slóvakíu í knattspyrnu þann 17. júní verður KSÍ með hátíð í Laugardalnum frá kl.15:00-18:15. Allir velkomnir jafnvel þó þeir ætli ekki á völlinn.  Á svæðinu við Laugardalsvöll verða hoppukastalar, knattþrautir KSÍ, andlitsmálun, matarvagnar, sölutjald með 17. júní varningi og candyfloss. Einnig verður hægt að kaupa landsliðsvörur á svæðinu og að sjálfsögðu verður boðið upp á tónlist, óvæntar uppákomur og sannkallaða þjóðhátíðarstemmingu. Öll velkomin í Laugardalinn. 

Öll fjölskyldan ætti að geta fundið sér eitthvað skemmtilegt á dagskránni.  

Dagskrána má nálgast á 17juni.is