Fráveita og mengun

Undanfarna tvo áratugi hafa verið gerðar miklar úrbætur í frárennslismálum á höfuðborgarsvæðinu. Fráveitur eru öll þau mannvirki sem reist eru til meðhöndlunar, flutnings eða hreinsunar á skólpi (lagnir, leiðslukerfi, safnræsi og búnaður til meðhöndlunar og hreinsunar skólps).  

Fráveita og mengun

Fráveitukerfi borgarinnar er tvöfalt í nýrri hverfum sem reist voru eftir 1965. Fráveitukerfi höfuðborgarsvæðisins flytur allt skólp frá heimilum og fyrirtækjum í hreinsistöðvar. Öðru máli gegnir um ofanvatn. Ofanvatn er regnvatn og leysingarvatn sem rennur í fráveitu af húsþökum, götum, bílastæðum, gangstéttum og öðru þéttu yfirborði. Það fer í sérstakt ofanvatnskerfi, fer ekki um hreinsistöð og er losað út í næsta viðtaka sem getur verið lækur, á eða strandsjór. 

  

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fær á hverju ári ábendingar um mengun sem berst með ofanvatni til viðtaka í Reykjavík. Ekki skal hella neinum efnum í niðurföll svo sem málningu, þynni, fitu eða olíu. Mikilvægt er að í ofanvatnslagnir fari engin efni sem geta skaðað lífríkið eða heilsu manna og spilliefnum skal skila á endurvinnslustöðvar. 

Almennt um fráveitu

Fráveituvatn er vatn sem búið er að nota t.d. baðvatn, vatn úr vöskum og klósettum, frá þvottavélum og frá bílaþvotti. Við notkun geta ýmis efni s.s. úrgangur frá fólki, matarleifar, olíur, sápur, hreinsiefni, málmar og jafnvel hættuleg efni blandast í annars hreint vatn. Hver einstaklingur ber ábyrgð á því að losa ekki mengandi efni og úrgang í fráveituvatn því slík losun hefur neikvæð áhrif á umhverfi og lífríki og getur einnig valdið skaða á fráveitukerfinu sjálfu.  

Nauðsynlegt er að hreinsa fráveituvatn til að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið. Því er gerð krafa um aðskildar lagnir ofanvatns- og skólplagnir og með því móti er hægt að koma fráveituvatni í mismunandi farveg eftir því hversu mikil hreinsun er nauðsynleg. Regnvatn eða ofanvatn  t.d. götum er almennt ekki mengað af örverum eða efnum og oft er nægjanlegt að einföld hreinsun á slíku vatni fari fram áður en það er losað út í umhverfið. Í skólpi eru aftur á móti mikið magn örvera sem eru hættulegar heilsu manna og mikið af lífrænu efni og úrgangi sem þarf að meðhöndla sérstaklega.

Regluverk

Í gildi er reglugerð um fráveitur og skólp og lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Reglugerðin er byggð á evróputilskipun um skólplosun frá þéttbýli (nr. 271/1991/EBE). Einnig má nefna að í gildi er samþykkt um rotþrær í Reykjavík nr. 593/2001.

 

Veitur ohf. sjá um rekstur og uppbyggingu fráveitu í Reykjavík og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur eftirlit með fráveitunni í samræmi við reglugerð um fráveitur og skólp.

Skyldur fasteignaeigenda

Í 12 gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitu er fjallað um fráveitulagnir og skyldur fasteignaeigenda:  

 • Eigendum húseigna þar sem fráveita liggur er skylt á sinn kostnað að annast lagningu og viðhald heimæða fyrir frárennsli að tengingu við fráveitukerfi. Lagnirnar skulu tengjast lögnum fráveitu á þeim stað og með þeirri hæðarsetningu sem fráveita tilgreinir. 

 • Í fráveitulögnum skal ofanvatn og skólp aðgreint nema annað sé heimilað. 

 • Endurnýi eigandi fráveitu fráveitukerfi sitt þannig að í hinu nýja kerfi sé ofanvatn og skólp aðgreint skulu eigendur fasteigna samhliða endurnýjun heimæða eða meiri háttar endurbótum á þeim aðskilja ofanvatn og skólp. 

 • Þar sem tvær eða fleiri fasteignir nýta sameiginlega heimæð skulu eigendur þeirra í sameiningu annast og kosta lagningu, rekstur og viðhald heimæðar nema um annað hafi verið samið. 

 • Húseigendum er skylt að halda vel við fráveitulögnum húseigna sinna og gæta þess að þær stíflist ekki.  

Húseigendur eru því sbr. ofangreint ábyrgir fyrir lagfæringum og viðhaldi á þeim frárennslislögnum sem liggja frá eignum þeirra  

 • Lög nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitu  

Rotþrær og siturlagnir

Skólp frá sérhverri húseign í Reykjavík, sem ekki er unnt að tengja við holræsi borgarinnar, skal leiða um rotþró. Umsókn um byggingu eða endurgerð rotþróar skal senda til Byggingafulltrúans í Reykjavík ásamt sérteikningum sem sýni gerð og staðsetningu og skal hann leita samþykkis Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um hönnun, gerð, stærð og staðsetningu rotþróarinnar. 

 

Í rotþró skal leiða skólp, baðvatn og þvottavatn og úr öllum niðurföllum innanhúss og niðurfalli við bílgeymslu utanhúss. Ekki skal leiða afrennsli frá ofnum eða afbræðslukerfum í rotþró nema með samþykki Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Ekki skal leiða þakvatn og annað yfirborðsvatn í rotþró.

Bráðamengun

Með bráðamengun er átt við skyndilegan atburð sem krefst tafarlausra viðbragða. Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með bráðamengun hafs og stranda og mengunaróhöppum almennt á landinu í heild. Skipulag sjálfra viðbragðanna er hins vegar skipt eftir staðsetningu mengunaróhappsins. Slökkviliðsstjóri á hverjum stað hefur með höndum stjórn á vettvangi við mengunaróhöpp á landi skv. lögum nr. 75/2000 um brunavarnir.  

 • Bráðamengun á landi ber að tilkynna til slökkviliðs eða lögreglu í síma 112 
 • Bráðamengun á sjó ber að tilkynna til Landhelgisgæslunnar í síma 511 3333

Bílaþvottur

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur beinir því til íbúa að bílaþvottur með efnum við heimahús er alls ekki æskilegur. Ryk mengað af þungmálmum, krabbameinsvaldandi efni og nanoefni geta komist út í náttúruna þegar bílar eru þvegnir. Hvatt er til þess að notað sé minna af sápuefnum og bílinn sé frekar þveginn á þvottaplani með viðeigandi mengunarvarnarbúnaði en heima við. Mikil notkun efnavöru er óæskileg út frá umhverfismálum þar sem efnin geta bæði verið skaðleg ef þau fara út í náttúruna og svo hefur framleiðsla þeirra oft slæm umhverfisáhrif. 

 

Reglurnar eru þessar 

 • Þvo bílinn á bílaþvottastöð eða -plani þar sem frárennslisvatn er að einhverju leyti hreinsað eða efni af bílum skolast frá og eru meðhöndluð sem spilliefni. Óæskileg efni eiga að fara í frárennsli þar - en ekki í afrennsli heima á bílaplaninu sem fer beint í ofanvatn án hreinsunar.
   

 • Sleppa hreinsiefnum eins og hægt er eða
   

 • Nota umhverfisvottuð hreinsiefni, bón og aðrar vörur til þvotta á bílnum.
   

 • Viturlegt er að leita að umhverfismerktum þvottaefnum t.d. Svansmerktum og æskilegt væri að rekstraraðilar sæju sér hag í að starfrækja umhverfisvottaðar bílaþvottastöðvar og plön. 

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur

Fyrirspurnir og/eða ábendingar