Vatnsstígur - Endurnýjun götu
Myndir
Hvað verður gert?
Jarðvinna:
Jarðvegsskipta á í götunni og því töluverður uppgröftur sem leiðir til þess að lokað verður á umferð bíla um götuna á framkvæmdatíma. Aðgengi gangandi að lóðum og inngöngum verður tryggt.
Veitur:
Gatan verður upphituð og snjóbræðsla lögð í allt göturýmið. Borgarlýsing verður uppfærð; nýir götuljósastrengir, stólpar og lampar. Lögð verður tvöföld fráveita sem tengd verður núverandi fráveitukerfi í Laugavegi og Hverfisgötu. Lagðar verða nýjar kaldavatnslagnir og hitaveitulagnir. Rafveita verður uppfærð að einhverju leiti.
Yfirborðsfrágangur:
Nýtt yfirborð götu verður hellulagt ásamt gróðurbeðum og blágrænum ofanvatnslausnum. Gatan verður göngugata en aðgengi bíla að lóðum verður tryggt.
Hvernig gengur?
Ágúst 2024
Verkkaupar hafa í samvinnu ákveðið að fresta útboði á verkinu. Verkhönnun tók lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir og spilaði sumarfrí bæði ráðgjafa og verkkaupa aðeins inn í. Því var það metið þannig að ekki þótti skynsamlegt að hefja framkvæmdir á þessu ári því óvissa var með það að ná að klára lagnavinnu þeirra veitna sem fara í götustæði ásamt tilheyrandi jarðvinnu.
Stefnt er að bjóða verkið út í haust og að framkvæmdir hefjist þegar veður leyfir á nýju ári.
Júní 2024
Verkhönnun er í gangi. Þegar henni lýkur verður verkið boðið út til framkvæmda. Stefnt er á að framkvæmdir hefjist eftir Menningarnótt og ljúki að mestu leyti á þessu ári. Vonandi verður gróðursetning nánast það eina sem teygir sig inn í 2025.