Stefna um fjölmenningarborgina Reykjavík

Teikning af fjórum manneskjum.

Þann 16. desember 2025 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkurborgar stefnu um fjölmenningarborgina Reykjavík 2026-2030. Stefnunni fylgir aðgerðaráætlun

Leiðarljós

Stefnan er leiðarljós fyrir alla starfsemi borgarinnar og eru áherslur hennar ofnar inn í starfsemi og stefnumörkun Reykjavíkur. Starfið byggir á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma. 

Hvert svið borgarinnar tekur forystu í þessum málaflokki innan síns sviðs og tryggir að stefnan og inngildandi vinnubrögð séu innleidd í öllu starfi. 

Innflytjendur eru íbúar, starfsfólk, notendur og/eða samstarfsaðilar allra sviða og skrifstofa Reykjavíkurborgar og er tekið tillit til þess í öllu starfi. 

Meginstefna

Fjölmenningarstefna Reykjavíkur er ein af meginstefnum borgarinnar og samofin öðrum stefnum hennar þar sem nær öll starfsemi borgarinnar hefur með beinum eða óbeinum hætti áhrif á heilsu og líðan allra borgarbúa. 

Fjölmenningarstefnan styður m.a. við markmið Græna plansins sem er sóknaráætlun Reykjavíkurborgar til 2030 í því augnamiði að borgin verði efnahagslega, umhverfislega og félagslega sjálfbær. 

Með því að hrinda úr vegi hindrunum fyrir innflytjendur er einnig verið að greiða götu annarra hópa samfélagsins, t. a m. þeirra sem þurfa auðlesinn texta, eru með dökkan hörundslit eða hafa táknmál að móðurmáli.

Reykjavík er eflandi, sjálfbært og fjölbreytt borgarsamfélag sem hvetur til virkrar þátttöku, tryggir öryggi og stuðlar að vellíðan allra. Til að ýta undir jákvæða þróun í nútímalegu samfélagi þarf að samþykkja og fagna fjölbreytileika þess.

  1. Reykjavíkurborg leggur sig fram við að taka vel á móti nýjum íbúum.
  2. Reykjavíkurborg vinnur eftir inngildandi nálgun sem felur m.a. í sér að virða að fólk er fjölbreytt og gera alltaf ráð fyrir því.
  3. Reykjavíkurborg leggur sig fram við að virkja allt fólk til þátttöku, gerir fjölbreyttum hópi fólks kleift að taka þátt í ákvarðanatöku á eigin forsendum, skapar öruggt umhverfi og stuðlar að vellíðan allra.
  4. Íbúar Reykjavíkur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn upplifa sig sem hluta af borgarsamfélaginu og þeir fá tækifæri til að vera virkir þátttakendur.
  5. Reykjavíkurborg leggur sig fram við að vera þjónandi forysta og vinnustaður sem mætir þörfum fólks óháð uppruna.
mynd af grænni borg

Reykjavíkurborg hefur fjórþætt hlutverk sem hefur áhrif á það hvernig einingar borgarinnar vinna að inngildingu og fjölmenningu:

Reykjavíkurborg sem stjórnvald

Sem stjórnvald hefur Reykjavíkurborg sett sér það markmið að vera í fararbroddi þegar kemur að jafnræði, mannréttindum og samvinnu við íbúa af erlendum uppruna. Ákvarðanir sem eru teknar á vegum borgarinnar eru gagnsæjar og hafa hagsmuni borgarbúa og leiðbeiningaskyldu borgarinnar að leiðarljósi. Borgin tekur ábyrgð á að koma á tengslum við og miðla upplýsingum til íbúa með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

Reykjavíkurborg sem atvinnurekandi

Sem atvinnurekandi vinnur Reykjavíkurborg markvisst gegn mismunun. Með virkum hætti er unnið að því að starfsfólk njóti styrkleika sinna á starfsstöðum borgarinnar, óháð uppruna og fái þann stuðning sem þeir þurfa til að nýta hæfileika sína til fulls. Fjölbreytni er styrkleiki og stefnir borgin að fjölgun innflytjenda í ábyrgðarstöðum.

Reykjavíkurborg sem miðstöð þjónustu

Sem þjónustuveitandi vinnur Reykjavíkurborg markvisst og skipulega að því að byggja upp þjónustu, menningarstarf, fræðslu og upplýsingamiðlun í þágu fjölbreytts samfélags. Öll eiga að hafa jafnt aðgengi að þjónustu og tekur hún mið af ólíkum þörfum fólks. Starfsfólk borgarinnar sýnir frumkvæði í að veita þjónustu því það er meðvitað um að innflytjendur þekkja síður kerfið og réttindi sín en aðrir íbúar. Jákvæð samskipti og gagnkvæm virðing á að endurspeglast í allri þjónustu borgarinnar.

Reykjavíkurborg sem samstarfsaðili og verkkaupi

Sem samstarfsaðili og verkkaupi leggur Reykjavíkurborg áherslu á samvinnu við aðra aðila sem vinna að málefnum innflytjenda. Lögð er áhersla á að allir aðilar sem borgin á í viðskiptum við virði réttindi starfsfólks síns. Borgin styður við nýsköpun innflytjenda og þeirra frumkvæði í atvinnusköpun.

Markmið aðgerðaáætlunar

Hér eru aðalmarkmiðin sett fram en svið Reykjavíkurborgar munu sjálf setja fram aðgerðir til að ná þessum markmiðum sem þau leggja fyrir sitt fagráð til samþykktar, eða fyrir borgarráð þar sem það á við. 

Innflytjendur eru yfir 20% borgarbúa en gert er ráð fyrir að stefnumótunin nýtist enn stærri hópi líkt og Reykvíkingum með dökkan húðlit sem geta upplifað svipaðar áskoranir. 

Samþykkt er að: 

  1. Sviðin kynna sér stefnuna og greina hvernig þessi málaflokkur snertir þeirra starfsemi sem atvinnurekandi, þjónustuveitandi, samstarfsaðili og verkkaupi.
  2. Í framhaldi vinna sviðin tímasettar aðgerðir fyrir þessa stefnu og taka mið af þeim áherslum sem koma fram hér.
  3. Aðgerðaráætlanir verða lagðar fram til samþykktar í ráðum sviðanna fyrir 1. mars 2026 þegar það á við og er í kjölfarið vísað inn í gerð starfs- og fjárhagsáætlana eftir atvikum.
  4. Mannréttindaskrifstofa mun fylgja eftir innleiðingu stefnunnar og leggja fram upplýsingar um framvindu aðgerðaáætlana sviðanna einu sinni á ári.