Erindi vegna fasteignagjalda
Borgarráð hefur samþykkt tímabundnar breytingar á innheimtureglum Reykjavíkurborgar vegna aðgerða sem tengdar eru efnahagslegum áhrifum af Covid-19 faraldrinum. Breytingin snýr bæði að kröfum fyrirtækja og einstaklinga.
Fresta gjalddögum
Fyrirtæki geta óskað eftir því að fresta allt að þremur gjalddögum fasteignaskatta og fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði, vegna tekjufalls, til 15. janúar 2021. Þetta úrræði er í samræmi við nýsamþykkt lög frá Alþingi um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.
- Skilyrði fyrir þessari frestun eru þau sömu og skilyrði fyrir frestun opinberra gjalda sem sækja þarf um hjá Skattinum.
- Fyrirtæki sækja um þessa frestun með því að senda inn erindi vegna fasteignagjalda.
- Fyrirtæki skulu hafa sótt um sambærilega frestun opinberra gjalda hjá Skattinum og með umsókninni þarf að fylgja staðfesting frá Skattinum fyrir umsókn um frestun opinberra gjalda.
Upplýsingar fyrir eigendur atvinnuhúsnæðis
Gjaldendur fasteignaskatta geta óskað eftir því að fresta allt að þremur gjalddögum fasteignaskatta og fasteignagjalda, (þ.e. lóðaleigu, sorphirðugjaldi og endurvinnslugjaldi) á atvinnuhúsnæði, vegna tekjufalls.
Þetta úrræði á við þá sem eiga við verulega rekstrarörðugleika að stríða á árinu 2020 vegna skyndilegs og ófyrirséðs tekjufalls, sem leiðir af almennum samdrætti innanlands og á heimsvísu. Þeim er á grundvelli laga nr. 25/2020 heimilt að sækja um frestun á skilum á allt að þremur gjalddögum fasteignagjalda sem eru á gjalddaga á tímabilinu frá 1. apríl 2020 til og með 5. desember 2020. Gjalddagi og eindagi þeirra greiðslna sem frestað er, að uppfylltum skilyrðum, er 15. janúar 2021.
Umsækjandi má ekki hafa verið með fasteignagjöld í vanskilum 31.12.2019.
Gögn með umsókn
Með umsókn um frestun þurfa eftirfarandi gögn að fylgja:
- Staðfestingarkvittun frá Skattinum um að sótt hafi verið um frestun gjalddaga staðgreiðslu (ef gjaldandi fasteignaskatta er jafnframt launagreiðandi).
- Greinargerð þar sem fram komi:
- Ástæður beiðni um frestun
- Upphafleg tekjuáætlun fyrir árið 2020, uppfærð tekjuáætlun fyrir 2020 og rauntölur tekna fyrir árið 2019. Upplýsingar innihaldi tekjur og eftir atvikum innborgaðar tekjur, að lágmarki sundurliðað á ársfjórðunga
- Staða eigin fjár 31.12.2019
- Staða handbærs fjár 31.12.2019
- Yfirlýsing um að hvorki verði úthlutað arði né eigin hlutir keyptir á árinu 2020, eða (þar sem það á við) að úttekt eigenda innan ársins 2020 verði ekki umfram reiknað endurgjald þeirra.
Undirritun
Umsókn skal undirrituð af prókúruhafa félags, eða viðkomandi einstaklingi sé um einstaklingsrekstur að ræða. Undirritaður/uð staðfestir að þær upplýsingar sem veittar eru með umsókn þessari eru samkvæmt bestu vitund um fjárhagslega stöðu á þeim tíma sem þær voru settar fram. Þá staðfestir undirritaður að þau gögn sem lögð eru fram með umsókn þessari eru lögformleg og réttmæt gögn, unnin lögum samkvæmt. Reykjavíkurborg áskilur sér rétt til þess að óska eftir frekari gögnum ef nauðsynlegt er til þess að vinna umsóknina, bæði frá umsækjanda og til að sækja upplýsingar til Creditinfo Lánstraust hf.
Undirritaður staðfestir með undirritun sinni að vera samþykkur þeirri vinnslu sem mun eiga sér stað, vera kunnugt um tilgang hennar og framkvæmd og notkun gagna og upplýsinga sem veittar hafa verið eða aflað vegna umsóknarinnar.
Undirritaður getur afturkallað umsókn sína á hvaða vinnslustigi sem er.
Mat og afgreiðsla
Við mat á umsóknum og afgreiðslu þeirra verða framangreind gögn yfirfarin með hliðsjón af skilyrðum sem fram koma í lögum nr. 25/2020 og tilgangi þeirra.