Umhverfis- og skipulagsráð - 77. fundur

Umhverfis- og skipulagsráð

Fundargerð samgöngunefndar

Þriðjudaginn 1. júní, ár 2004, kl. 09:00 var haldinn 77. fundur samgöngunefndar Reykjavíkur í Skúlatúni 2, 5. hæð.

Þessir sátu fundinn: Árni Þór Sigurðsson, Gísli M. Baldursson, Haukur Logi Karlsson, Hlín Sigurðardóttir og Kjartan Magnússon.

Einnig komu á fundinn: Ásgeir Eiríksson, Anna Guðrún Hermannsdóttir, Baldvin Baldvinsson, Björn Ingi Sveinsson, Friðgeir Jónsson, Gunnar Ingi Ragnarsson, Haraldur Sigurðsson, Jóhannes Kjarval, Magnús Friðgeirsson, Ólafur Sigurðsson, Ólafur Stefánsson, Stefán A. Finnsson, Stefán Haraldsson, Sigurður Skarphéðinsson og Þorgrímur Guðmundsson.

Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.

Þetta gerðist:

Mál nr. 2001040174
1. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 06.05.2004, varðandi samþykkt þess að leyfi Árna Þórs Sigurðssonar frá formennsku í samgöngunefnd ljúki og að frá og með sama tíma verði Katrín Jakobsdóttir leyst frá störfum í nefndinni.

Mál nr. 2001110072
2. Lagt fram svar borgarverkfræðingsins í Reykjavík og forstöðumanns Verkfræðistofu RUT, dags. 11.04.2004, við bókun sjálfstæðismanna í samgöngunefnd, frá 27.04.2004 um málsmeðferð.

Mál nr. 2002020072
3. Lagt fram bréf borgarverkfræðingsins í Reykjavík, dags. 27.05.2004, varðandi tillögu um fjölgun umferðaskilta á Kjalarnesi.
Samþykkt.

-Kl. 09.10 tók Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

Mál nr. 2002110015
4. Lögð fram samantekt unnin af íbúasamtökum Kjalarness um umferðarmál og öryggi á Kjalarnesi dags. í apríl 2004.

Mál nr. 2003070067
5. Kynning á útliti brúar og aðgerðum í Bæjarhálsgjá og á gatnamótum Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar.
Nefndarmenn óskuðu eftir frekari kynningu á málinu á næsta fundi.

Mál nr. 2003100011
6. Lögð fram umsögn yfirverkfræðings Verkfræðistofu RUT, dags. 18.05.2004, varðandi erindi íbúa við Sörlaskjól, dags. 01.10.2003.
Samþykkt.

Fulltrúar sjálfstæðismanna í samgöngunefnd óskuðu bókað:
Sjálfstæðismenn minna á fyrri bókun sína um þetta mál frá 61. fundi samgöngunefndar þar sem tekið var undir óskir íbúa við Sörlaskjól um úrbætur í umferðar- og bílastæðamálum. Þeim tilmælum er beint til skipulagssviðs að sem fyrst verði gerð bílastæði vegna útivistarsvæðisins við Ægisíðu. Enn fremur er óskað eftir því við gatnamálastjóra að gengið verði þannig frá hliði að tryggt sé að bílar komist ekki inn á barnaleikvöllinn.

Mál nr. 2004040020
7. Lagt fram bréf Unnar Birgisdóttur f.h. menningarmálanefndar, dags. 18.05.2004, varðandi umsögn forstöðumanns Listasafns Reykjavíkur, dags. 17.05.2004, vegna minnismerkis við Þjóðminjasafn.

Formaður lagði fram tillögu að bókun samgöngunefndar:
Með tilliti til umsagnar forstöðumanns Listasafns Reykjavíkur og erindis menningarmálanefndar vegna minnismerkis Þjóðminjasafns, er rétt að fram komi að samgöngunefnd fjallar ekki um staðsetningar útilistaverka eins og réttilega kemur fram í umsögn forstöðumanns Listasafnsins. Hins vegar fer samgöngunefnd með umferðarmál og umferðaröryggismál og staðsetningu stórra listaverka, auglýsingaskilta o.þ.h. getur eðlilega snert verksvið samgöngunefndar að þessu leyti. Samgöngunefnd mun, að öðru leyti en varðar umferðaröryggisþátt málsins, ekkert aðhafast frekar vegna þessa máls enda er það á forræði menningarmálanefndar að fenginni umsögn skipulags- og byggingarnefndar.
Bókunin samþykkt samhljóða.

Mál nr. 2004040032
8. Lögð fram umsögn borgarverkfræðingsins í Reykjavík, dags. 20.05.2004, varðandi ósk Viðeyjarferjunnar ehf., um akstur lítillar farþegalestar á gangstíg meðfram Sæbraut.
Samþykkt.

Mál nr. 2004040040
9. Lögð fram umsögn Jóhannesar S. Kjarvals f.h. skipulagsfulltrúa, dags. 07.05.2004, varðandi umsókn kaupmanna við Laugaveg um fjölgun bílastæða við Laugaveg. Einnig lögð fram umsögn gatnamálastjóra dags. 28.05.2004 um sama efni.
Samþykkt.

Mál nr. 2002070079
10. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Bílastæðasjóðs dags. 28.05.2004, varðandi endanlega ákvörðun um stærð bílakjallara við Laugaveg 86-94.
Samþykkt með 3 samhljóða atkvæðum, fulltrúar sjálfstæðismanna sátu hjá við afgreiðslu málsins.

Fulltrúar sjálfstæðismanna í samgöngunefnd óskuðu bókað:
Ljóst er að það getur ekki verið forgangsverkefni í bílastæðamálum borgarinnar að reisa bílastæðahús á Stjörnubíóreit fyrir 193 bíla. Nú eru 65 bifreiðastæði á umræddum reit og er nýting þeirra með því lakasta sem þekkist eða í kringum 25#PR samkvæmt tölum frá bílastæðasjóði. Að auki má benda á að næsta bílastæðahús, Vitatorg, sem er örskammt frá, er verst nýtta bílastæðahús borgarinnar. Skýtur skökku við að R-listinn kjósi að byggja bílastæðahús fyrir hundruð milljóna króna á þessum stað enda væri nær að láta slíka uppbyggingu ganga fyrir þar sem raunverulegur bílastæðaskortur er fyrir hendi, þ.e. neðar á Laugavegi eða í Kvosinni. Má í því sambandi minna á ósk tíu kaupmanna við neðanverðan Laugaveg um fjölgun bílastæða sem afgreidd var á þessum fundi undir 9. lið.
Ákvörðun R-listans um að byggja bílastæðahús á þessum stað virðist þó ekki vera vanhugsuð. Þar sem virðist fremur um að ræða þaulhugsaða réttlætingu sem gripið er til eftir á til að réttlæta vafasöm lóðakaup á Stjörnubíóreit

Fulltrúar Reykjavíkurlistans í samgöngunefnd óskuðu bókað:
Lengi hefur verið áformað að leggja áherslu á tvær meginstaðsetningar vegna nýrra bílastæðahúsa, annars vegar í Kvos og hins vegar á austursvæði Laugavegar. Skoðaðar voru tvær staðsetningar á austurhluta Laugavegar, við Laugaveg 77 og Stjörnubíóreit. Ekki tókst að ná samkomulagi við lóðarhafa Laugavegs 77 og því var ákveðið að ráðast í byggingu bílastæðahúss á Stjörnubíóreit. Með samþykktum skipulagsáformum við Laugaveg er umrætt bílastæðahús þýðingarmikið. Fullyrðingar um vafasöm lóðarkaup eru ekki svarverðar.

Fulltrúar sjálfstæðismanna í samgöngunefnd óskuðu bókað:
Forystumenn R-listans hafa oft sett fram þau sjónarmið að aukning einkabílaumferðar sé óæskileg. Úr þeirra hópi hefur heyrst sú gagnrýni að uppbygging umferðarmannvirkja, ekki síst bifreiðastæða, stuðli um of að aukningu einkabílaumferðar í stað þess að setja henni skorður. Með því að fullnægja framboði fyrir bílastæði sé í raun verið að hrinda af stað víxlverkun sem leiði til enn frekari fjölgunar einkabíla. Athyglisvert er að nú skuli sömu borgarfulltrúar ganga fram fyrir skjöldu og vera helstu málsvarar þess að hundruðum milljóna króna af almannafé verði varið til uppbyggingar húss með 193 bílastæðum, á reit þar sem núverandi meðalnýting nemur aðeins sextán stæðum. Því verður með engu móti neitað að fjölgun bílastæða á svonefndum Stjórnubíóreit er langt umfram núverandi þörf á sama tíma og bílastæðaskortur er afar aðkallandi víða annars staðar í borginni. Á þessum fundi samþykkti samgöngunefnd auk þess nýjar tillögur R-listans, sem miða að því að skerða verulega aðgengi einkabifreiða að ofanverðum Laugavegi og sýnir það enn hve undarleg ráðstöfun það er að stór fjölga á sama tíma bílastæðum á Stjörnubíóreit með ærnum tilkostnaði. Með slíkri offjárfestingu virðast borgarfulltrúar R-listans færast öfganna á milli í afstöðunni til einkabíla og samkvæmt bókun þeirra eru þeir nú á þeirri skoðun að skapa eigi einkabílum sem flest bifreiðastæði, a.m.k. við ofanverðan Laugaveg.

Mál nr. 2002070112
11. Lagt fram bréf yfirlögregluþjónsins í Reykjavík dags. 19.05.2004, varðandi 30 km. svæði í Reykjavík.

12. Formaður samgöngunefndar lagði fram eftirfarandi tillögu:
Samgöngunefnd samþykkir að skipa starfshóp um stöðu hjólreiða í Reykjavík. Hópurinn skoði stöðu mála og komi með tillögur um það sem betur má fara með tilliti til öryggis og aukinnar notkunar, stefnu Reykjavíkurborgar m.t.t. hjólreiða (Aðalskipulag, umhverfisstefna og samgöngustefna) og leggi fram áhersluatriði til stefnumörkunar sem leiði af sér áætlun vegna hjólreiða. Hópurinn hafi eftirtalin markmið að leiðarljósi.

Hvernig er fyrirliggjandi stígakerfi að þjóna hjólreiðafólki?
Hvernig er þverun gatna, merkingum fyrir hjólreiðar og hjólastæðum háttað í borginni?
Er þörf á að leggja hjólareinar í götustæði?
Hvernig er tengingum milli sveitarfélaga háttað með tilliti til hjólreiða?
Hvernig er hægt að auka hlut hjólreiða í samgöngum borgarbúa og fylgja þannig eftir markmiðum borgarinnar í vistvænum valkostum í samgöngum?

Starfstilhögun
Skipaðir verði 4 einstaklingar, 1 frá umhverfis- og heilbrigðisnefnd, 1 frá skipulags- og byggingarnefnd, 1 frá samgöngunefnd og 1 fulltrúi hjólasamtaka sem leggi sérstaka áherslu á að endurspegla sjónarmið hjólaiðkenda. Fulltrúi samgöngunefndar stýri starfi hópsins en umhverfis- og tæknisvið leggi hópnum til ritara og starfsmenn eftir þörfum í samráði við hópstjóra. Hópurinn taki þegar til starfa og skili áliti fyrir lok ágúst. Hópurinn kalli eftir hugmyndum frá áhugasömum og hagsmunaaðilum. Skýrslan verði lögð fyrir samgöngunefnd og höfð til hliðsjónar við starfsáætlunargerð borgarinnar fyrir árið 2005 og stefnumótunarvinnu í samgöngumálum.
Samþykkt.

12. Mál nr. 2004060001
Hlemmur – Gunnar Ingi Ragnarsson verkfræðingur og Anna Guðrún Hermannsdóttir kynntu stöðu málsins. Fyrsti áfangi verkefnisins samþykktur með 3 atkvæðum Reykjavíkurlistans gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokksins.

Fulltrúar sjálfstæðismanna í samgöngunefnd óskuðu bókað:
Svæðið umhverfis Hlemm er afar mikilvægt fyrir Miðbæinn og borgina alla. Svæðið er einskonar hlið að Miðborginni, bæði nú og í sögulegu ljósi. Þær róttæku breytingar á umferðaskipulagi svæðisins sem nú eru kynntar í samgöngunefnd, bera öll merki þess að hafa verið unnar í flýti og án þess að nauðsynlegur stuðningur og framtíðarsýn kæmi frá pólitískum borgaryfirvöldum. Fyrir vikið samþykkir meirihlutinn tillögu sem vafalítið mun skapa margvísleg vandamál í umferðinni á svæðinu, mun hamla eðlilegri umferð á mestu verslunargötu borgarinnar, Laugaveginn, og jafnvel bera umferð inn í íbúðahverfi. Þá er verið að stórauka umferð á Skúlagötu, sem er íbúðagata, með fyrirséðum truflunum m.a. vegna hljóðvistar, án nokkurra tillagna um úrbætur. Það er staðföst trú sjálfstæðismanna í nefndinni að hinir ágætu umferðafræðingar borgarinnar gætu fundið mun betri lausn fyrir Strætó og Hlemmsvæðið ef pólitísk forysta, tími og peningar væru til staðar í samgöngumálum svæðisins.

Fulltrúar Reykjavíkurlistans í samgöngunefnd óskuðu bókað:
Samþykkt samgöngunefndar nú felur í sér heimild til að senda fyrirliggjandi tillögu í auglýsingu enda fallist skipulags- og byggingarnefnd á það. Að loknu skipulagsferlinu verði að nýju fjallað um tillöguna og afstaða tekin til athugasemda og umsagna sem kunna að berast.

Fulltrúar sjálfstæðismanna í samgöngunefnd óskuðu bókað:
Ljóst er að ef slíkar tillögur, sem hér hafa verið til kynningar, verða að veruleika, munu þær hafa mikil áhrif á gatnakerfi og ásýnd á stóru svæði í kringum Hlemm og í Miðborginni. Óskað er eftir því að umræddar tillögur verði kynntar rekstraraðilum, íbúasamtökum og hverfaráði á svæðinu, m.a. Laugavegssamtökunum og hverfafélagi sjálfstæðismanna í Austurbæ og Norðurmýri og þeim aðilum gefinn kostur á því að leggja fram umsagnir áður en ákvarðanir verða teknar.

Mál nr. 2004040058
13. Lagt fram að nýju bréf gatnamálastjóra dags. 30.04.2004, um greinagerð verkfræðistofunnar Hönnunar hf., varðandi endurskoðun á vegvísunarkerfi höfuðborgarsvæðisins dags. 27.04.2004. Ólafur Sigurðsson, verkfræðingur kynnti.
Samþykkt samhljóða.
Jafnframt samþykkt að óska umsagna Hverfaráða á höfuðborgarsvæðinu um málið.

14. Magnús Friðgeirsson og Friðgeir Jónsson kynntu virkni ökusírita..

Mál nr. 2001030040
15. Lagt fram svar yfirverkfræðings Verkfræðistofu RUT dags. 27.05.2004, vegna fyrirspurnar frá Óskari D. Ólafssyni um Sundlaugarveg.

Mál nr. 2004050052
16. Úrbætur í umferðaröryggismálum árið 2004, lagt fram bréf yfirverkfræðings Verkfræðistofu RUT dags. 28.05. 2004.
Samþykkt.

Mál nr. 2002020072
17. Lagt fram bréf ritara samgöngunefndar varðandi erindi er borist hafa nefndinni dags. 27.05.2004.

a. Lagt fram bréf Lilju Oddsdóttur, dags. 27.04.2004, varðandi merkingu við
Waldorfskóla. (Mál nr. 2002070022).
Vísað til gatnamálastofu.

b. Lagt fram bréf Ólafíu Daggar Ásgeirsdóttur, f.h. Hverfisráðs Hlíða,
dags. 28.04.2004, varðandi breytingar á gatnakerfi Hlíðahverfis samfara nýju
leiðarkerfi Strætó bs. (Mál nr. 2004040056).
Vísað til Verkfræðistofu RUT.

c. Lagt fram bréf Ólafíu Daggar Ásgeirsdóttur, f.h. Hverfisráðs Hlíða,
dags. 28.04.2004, varðandi erindi Þuríðar Geirsdóttur, íbúa við Stórholt, dags.
vegna umferðarmála í Hlíðahverfi. (Mál nr. 2004040056).
Vísað til Verkfræðistofu RUT.

d. Lagt fram bréf Ólafíu Daggar Ásgeirsdóttur, f.h. Hverfisráðs Árbæjar,
dags. 18.05.2004, varðandi gönguleiðir í Árbæ. (Mál nr. 2004050038).
Vísað til Verkfræðistofu RUT.

e. Lagt fram bréf Ólafíu Daggar Ásgeirsdóttur, f.h. Hverfisráðs Árbæjar,
dags. 19.05.2004, varðandi umferðaröryggi við Selásskóla. (Mál nr. 2001010096).
Framsent til Skipulags og byggingarsviðs.

f. Lagt fram bréf Ólafíu Daggar Ásgeirsdóttur, f.h. Hverfisráðs Árbæjar,
dags. 19.05.2004, varðandi umferðaröryggi í Árbæ. (Mál nr. 2004050037).
Sent til kynningar til Verkfræðistofu RUT.

g. Lagt fram bréf Ólafíu Daggar Ásgeirsdóttur, f.h. Hverfisráðs Háaleitis,
dags. 21.05.2004, varðandi umferð um norðanvert Hvassaleitið.
(Mál nr. 2004050048)
Vísað til Verkfræðistofu RUT.

Fulltrúar sjálfstæðismanna í samgöngunefnd lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Framundan eru viðamiklar breytingar á leiðakerfi almenningssamgangna í Reykjavík. Hinn 30. marz sl. voru tillögur að nýju leiðakerfi kynntar á fundi samgöngunefndar. Kom þá m.a. fram að umræddar tillögur væru enn í mótun. Mikilvægt er að umræddar breytingar gangi vel fyrir sig og að nægur tími gefist til að kynna tillögurnar fyrir kjörnum fulltrúum og almenningi, og fá ábendingar um það sem betur má fara, áður en þær verða samþykktar. Áréttaðar eru fyrri óskir um að fulltrúar sjálfstæðismanna fái í hendur ýtarleg gögn um tillögur að nýju leiðakerfi. Þá er óskað eftir svörum við eftirfarandi spurningum:
1. Hvenær er fyrirhugað að nýtt leiðakerfi Strætó bs. taki gildi?
2. Hvað er áætlað að fyrirhugaðar breytingar muni kosta?
3. Hver er áætlaður árlegur rekstrarkostnaður nýja leiðakerfisins? Jafnframt er óskað eftir upplýsingum um rekstrarkostnað við núverandi kerfi fyrir árin 2002-2003.
4. Kílómetrafjöldi. Óskað er eftir upplýsingum um samanlagðan kílómetrafjölda leiða og samanburð við núverandi kerfi. Einnig er óskað eftir upplýsingum um árlegan heildarfjölda ekinna kílómetra og samanburð við núverandi kerfi”.
Frestað.

Fulltrúar sjálfstæðismanna í samgöngunefnd lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Mörg dæmi eru um það í Reykjavík að umferðarskilti og vegvísar skyggi á útsýni ökumanna og skapi þar með slysahættu. Samgöngunefnd Reykjavíkur samþykkir að gerð verði úttekt á staðsetningu skilta í borginni út frá umferðaröryggissjónarmiðum. Leitað skal eftir samstarfi við Vegagerð ríkisins vegna slíkrar úttektar og nauðsynlegra úrbóta sem kunna að fylgja í kjölfarið.
Frestað.

Fulltrúar sjálfstæðismanna í samgöngunefnd lögðu fram eftirfarandi tillögu:
,,Samgöngunefnd felur Umhverfis- og tæknisviði Reykjavíkurborgar að skoða leiðir til að auka umferðaröryggi á gatnamótum Hringbrautar og Furumels og koma með tillögur þar að lútandi.
Frestað.

Fulltrúar sjálfstæðismanna í samgöngunefnd lögðu fram eftirfarandi ályktunatillögu:
Samgöngunefnd Reykjavíkur beinir þeim tilmælum til Vegagerðar ríkisins að sett verði upp vegrið meðfram Vesturlandsvegi í Ártúnsbrekku til að afmarka veginn og skilja að vegarhelminga.
Mikil og hröð umferð er í Ártúnsbrekku og þar hafa orðið mörg alvarleg slys.
Á þeim 80 km. hámarkshraða, sem gildir á þessum slóðum, tekur bíl innan við hálfa sekúndu að þeytast yfir á rangan vegarhelming, fari hann á annað borð út af. Vegrið myndu einnig auka öryggi gangandi vegfarenda á þessum slóðum.
Samþykkt.

Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 11:20

Árni Þór Sigurðsson
Gísli Marteinn Baldursson
Haukur Logi Karlsson
Hlín Sigurðardóttir
Kjartan Magnússon