Samgöngumál

Ferðamynstur og -hættir fólks er mismunandi eftir því hvaða þjóðfélagshópi það tilheyrir. Flestar rannsóknir sem til eru fjalla um mismunandi ferðavenjur- og hætti karla og kvenna. Þá sýna íslenskar kannanir fram á að skipting kynjanna sem ferðast með almenningssamgöngum sé frekar jöfn á meðan erlendar rannsóknir benda til þess að konur ferðist miklu meira með almenningssamgöngum.

Samgönguhættir

Þónokkuð vantar upp á greiningu samgönguhátta annarra hópa; innflytjenda, fatlaðs fólks, eldra fólks ásamt því að greina eftir fjárhagi/stéttaskiptingu. Allt eru þetta þættir sem hafa áhrif á samgönguvenjur fólks en lítið verið rannsakað. Þá hafa ferðavenjukannanir- og rannsóknir hér á landi ekki tekið fyrir kynja- og jafnréttissjónarmið sérstaklega. Þó sýna þessar kannanir að munur er á samgönguháttum mismunandi hópa en ekki er farið dýpra í það en svo. Forgangsröðun verkefna í samgöngumálum hér á landi hafa heldur ekki verið greindar út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum sem mikilvægt væri að gera vegna þess að rannsóknir benda til þess að slík forgangsröðun tekur oft mið af þörfum karla. Þetta er vegna þess að hingað til hafa samgöngur verið karllæg atvinnugrein og stjórnendur oftast verið karlar. Þar sem umskipting í samgöngum er mikilvægur þáttur í leið að kolefnishlutlausu samfélagi væri nauðsynlegt að greina heildarstefnu stjórnvalda og sveitarfélaga í þessum málefnum út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Þá fyrst er hægt að raunverulega mæla árangur og hagkvæmni.

Rannsóknir á ferðavenjum

Nauðsynlegt er að leggja meiri áherslu á rannsóknir og kannanir á ferðavenjum mismunandi hópa í samfélaginu til að sjá hvar tíma og fé sé best varið svo það gagnist sem flestum. 

Fyrir um það bil áratug síðan var byrjað að greina kynjaáhrif á forgangsröðun samgönguverkefna erlendis. Slíkt hefur ekki verið rannsakað hér og því erfitt að meta hvort að við áætlanagerð og forgangsröðun verkefna sé fyrst og fremst tekið mið af ferðamynstrum og þörfum karla. Þá eru ekki heldur til rannsóknir sem leggja áherslu á að greina ferðavenjur fólks út frá þjóðfélagsstöðu þeirra, til dæmis fólk af erlendum uppruna, fötluðu fólki, eftir fjárhag, atvinnu og svo framvegis.

Það er því mikið af spurningarmerkjum þegar kemur að greiningu kynja- og jafnréttissjónarmiða í samgönguverkefnum hérlendis.

Hvernig hafa framkvæmdir áhrif á fólksflutninga og jafnrétti?

Jarðgangaframkvæmdir hér á landi hafa sýnt að á framkvæmdatíma fjölgar körlum og framkvæmdirnar ná oft að stoppa fólksflutninga úr dreifbýlum og jafnvel fjölga íbúum í skamman tíma.

 

Hins vegar fer fólki aftur að fækka að einhverjum árum liðnum ef ekki kemur til fjölbreytt atvinnuuppbygging.