Fjölmenni fylgdist með sólmyrkvanum

Mannlíf

""

Margt var um manninn við Tjörnina og víðar í borginni þar sem útsýni gafst til að skoða sólmyrkvann í morgun.

Kjörveðuraðstæður voru á vorjafndægri þegar tungl gekk fyrir sólu og gátu borgarbúar og erlendir ferðamenn notið þessa stjarnfræðilega fyrirbæris til fullnustu. Víða safnaðist fólk saman til að fylgjast með sólmyrkvanum, t.d. við Tjörnina, á Skólavörðuholti, í Öskjuhlíð og við Háskóla Íslands. Margir mættu vel tækjum búnir, með sólmyrkvagleraugu, hlífðarfilmur og litað gler og filteraðar ljósmyndalinsur voru notaðar til að ná sem bestum myndum af myrkvanum. 

Sólmyrkvinn náði hámarki um tuttugu mínútur fyrir tíu og lauk klukkustund síðar. Hann er sá mesti á Íslandi síðan 1954. Næsti sólmyrkvi hér á landi verður 12 ágúst 2026.