LJÓSIÐ LÆÐIST INN - Skáldlegt stefnumót við Edmonton á Vetrarhátíð

Mannlíf Menning og listir

""

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO fagnar Vetrarhátíð með einstöku ljóðakvöldi í Tjarnarsal Ráðhússins þann 5. febrúar nk. Þar koma fram borgarskáld Edmonton, Mary Pinkoski, og reykvísku skáldin Anton Helgi Jónsson og Elías Knörr ásamt tónlistarkonunni dj. flugvél og geimskip sem vill með tónlist sinni senda áheyrendur í ferðalag um geiminn. Skáldin hafa fléttað saman verk sín og munu þau flytja skáldskap hvers annars ásamt því að flytja eigið efni hvert á sinn einstaka hátt. Dagskráin er innblásin af ljósinu í vetrarmyrkrinu.

Öll leggja skáldin áherslu á munnlegan flutning ljóðlistar en með ólíkum áherslum. Mary Pinkoski skilgreinir sig sem „spoken word poet“, Elías á það til að syngja sinn skáldskap og Anton Helgi er þekktur fyrir lifandi og persónulegan flutning. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Reykjavík setur dagskránna og Stewart Wheeler sendiherra Kanada á Íslandi ávarpar gesti.
Ljóðakvöldið verður í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur og hefst dagskráin kl. 20.30 þann 5. febrúar.
Viðburðurinn er framlag Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO til Árs ljóssins hjá UNESCO.

Gestaborgin Edmonton
Gestaborgin - Edmonton calling er samstarf tónlistarmanna og ljóðskálda frá Reykjavík og Edmonton í Kanada. Af því tilefni hefur Bókmenntaborgin stefnt saman þessum þremur skáldum, Mary Pinkoski, Antoni Helga Jónssyni og Elíasi Knörr.  Auk skáldanna kemur tónlistarkonan dj. flugvél og geimskip fram á ljóðakvöldinu. Hún flytur hressilega elektróníska tónlist með „geimívafi“. Markmið hennar er að upplifun áheyrenda minni á drauma eða ferðalag um geiminn.

Eftir ljóðadagskránna verða tónleikar í Iðnó en þar stilla tónlistarmennirnir saman strengi sína og flytja tónlist hvors annars með skemmtilegri útkomu. Íslensku tónlistarmennirnir eru m.a. Pétur Ben, Sóley, Lay Low og Snorri Helgason og frá Edmonton koma Cayley Thomas, Braden Gates og Kristofor Ellestad auk Paul Cournoyer og Stephanie Blais úr hljómsveitinni Post Script.

Nánar um skáldin:
MARY PINKOSKI
Mary Pinkoski er lárviðarskáld Edmontonborgar árin 2013 – 2015. Hún leggur sérstaka áherslu á flutning ljóða og hefur unnið til verðlauna fyrir ljóðaflutning sinn. Mary hefur komið fram víða um Kanada, bæði á sviði og í þarlendum útvarpsþáttum. Mary lenti í þriðja sæti í kanadíska ljóðaslamminu Canadian Individual Poetry Slam 2013, sem var besti árangur kvenskálds í keppninni. Hún hefur einnig verið í forsvari fyrir lið Edmonton í sömu keppni. Milli þess sem Mary kemur fram og skrifar, leiðbeinir hún unglingum og fullorðnu fólki í ljóðaslammsmiðjum.
Meðal bóka sem Mary Pinkoski hefur sent frá sér eru Set List: poems for lonely microphones (2008); Do Geese See God (Olive Reading series); Instructions on How to Fold a Paper Bird, (2009); My Heart and Other Small Gifts (2009); love is a tree we planted (2011). Verk eftir hana hafa einnig birst í Papirmasse 2009 & 2013; 2008 CBC Poetry Face-Off CD (CBC); Daily Haiku, 2008; Stroll of Poets Anthology.

ANTON HELGI JÓNSSON
Anton Helgi hefur sent frá sér fjölda ljóðabóka og er sú nýjasta, Tvífari gerir sig heimakominn, frá 2014. Hann hefur einnig skrifað fyrir svið og útvarpsleikhús og gefið út eina skáldsögu, auk þess að þýða leikrit úr öðrum málum. Anton Helgi hefur tvisvar hlotið Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóð sín, fyrst 2009 og síðan árið 2014. Anton hefur komið af miklum krafti inn í reykvísku ljóðasenuna á síðustu árum eftir að hafa tekið sér nokkurt hlé. Hann er sérlega skemmtilegur ljóðaflytjandi og ljóð hans eru oft húmorísk og hlýleg í senn.

ELÍAS KNÖRR
Elías Knörr eða Elías Portela er ljóðskáld og þýðandi frá Galisíu. Hann verið búsettur í Reykjavík um nokkurra ára skeið. Elías skrifar bæði á íslensku og galisísku og hefur nýlega unnið til virtustu ljóðaverðlauna Galisíu fyrir bókina Bazar de traidores (Svikabasar). Aðrar bækur hans á galisísku eru Imaxes na pel (Myndir á skinni frá 2008) og Cos peitos desenchufados (Með brjóstin ótengd frá 2010).
Á íslensku hefur hann sent frá sér ljóðabókina Sjóarinn með morgunhestana undir kjólnum sem bókaforlgaið Stella gaf út árið 2010. Ljóð eftir hann hafa birst í tímaritinu Stellu og bókinni Ljóð í leiðinni: skáld um Reykjavík, sem Meðgönguljóð gaf út í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg 2013. Hann vinnur nú að ljóðabók á íslensku.